Fundu engin dæmi um spillingu

Kristján Geir Pétursson starfsmaður nefndarinnar og nefndarmennirnir Héðinn Eyjólfsson, Guðmundur …
Kristján Geir Pétursson starfsmaður nefndarinnar og nefndarmennirnir Héðinn Eyjólfsson, Guðmundur Heiðar Frímannsson og Hrafn Bragason. mbl.is/Kristinn

„Það var dómgreindarleysi, það var andvaraleysi og ákveðinn vanmáttur, en ekki spilling,“ sagði Guðmundur Heiðar Frímannsson, heimspekiprófessor, á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í morgun en hann átti sæti í nefnd á vegum Landssambands lífeyrissjóða sem gerði úttekt á starfsemi lífeyrissjóða í aðdraganda bankahrunsins.

Guðmundur var þar að bregðast við fyrirspurn frá Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, þingmanni Samfylkingarinnar, hvort nefndin teldi að spilling hefði verið til staðar í stjórnun lífeyrissjóðanna og fjárfestingastefnu þeirra. Sagði hún að svo virtist sem kjánaskapur hefði verið til staðar í stjórnun sjóðanna eða eitthvað slíkt andrúmsloft. Sá grunur læddist að henni að einhvers konar spilling hefði verið grasserandi þar.

Guðmundur sagði að nefndin hefði meðal annars nálgast viðfangsefni sitt út frá þeim punkti hvort einhverju slíku hefði verið fyrir að fara. Hann sagði alveg ljóst að andvaraleysi hefði verið til staðar hjá stjórnum lífeyrissjóðanna. Sjóðirnir hefðu verið veikir fyrir þegar kom að fjárfestingum. Þeir hafi ekki haft það starfsfólk sem þurft hafi til þess að vinna nauðsynlega undirbúningsvinnu áður en farið var út í ýmsar fjárfestingar.

Lífeyrissjóðirnir hefðu fyrir vikið treyst of mikið á mat annarra og þá ekki síst bankanna. Sjóðirnir hefðu verið veikir að þessu leyti í samanburði við bankana. Guðmundur sagði hins vegar að nefndin hefði ekki fundið merki um eitthvað sem kalla mætti spillingu í úttekt sinni. Í það minnsta ekki hjá þeim sjóðum sem nefndin skoðaði.

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, sagðist sakna þess að komið væri meira inn á tilraunir fyrirtækja til þess að hafa áhrif á ákvarðanir stjórnarmanna í lífeyrissjóðunum. Nefndi hún sem dæmi boðsferðir til stjórnarmanna í því sambandi og ennfremur að Baugur hefði á sínum tíma hótað að stofna eigin lífeyrissjóð vegna þess að fyrirtækinu hefði ekki líkað fjárfestingastefna Lífeyrissjóðs verzlunarmanna.

Guðmundur sagði það vissulega rétt að slíkar hótanir hefðu komið fram. Hann tók hins vegar fram að nefndin hefði ekki lagt mat á það hvort boðsferðir fyrirtækja til stjórnenda lífeyrissjóða hafi haft áhrif á ákvarðanir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka