Ganga ekki á rétt trúfélaga

Stytta Jóns Sigurðssonar á Austurvelli. Dómkirkjan í baksýn.
Stytta Jóns Sigurðssonar á Austurvelli. Dómkirkjan í baksýn. Morgunblaðið/Sverrir

Siðfræðistofnun Háskóla Íslands telur að frumvarp innanríkisráðherra um breytingar á lögum um skráð trúfélög gangi ekki augljóslega á rétt þeirra sem lögin ná nú yfir, þ.e. skráð trúfélög. Breytingarnar sem ætlað er að ná fram séu skýrar og vel skilgreindar.

Með frumvarpinu stendur til að jafna stöðu lífsskoðunarfélaga og skráðra trúfélaga. Í umsögn Siðfræðistofnunar segir að erfitt sé að sjá að tillögurnar geri starfsskilyrði skráðra trúfélaga erfiðari, en það var einmitt röksemd sem kom fram í umsögn biskups Íslands. „Tillögunum er ætlað að jafna stöðu fólks eftir lífsskoðunum þess fremur en að skerða réttindi þeirra hópa sem lög um skráð trúfélög hafa náð yfir.“

Þá segir, að ljóst sé að þau félög sem lögin hafa ekki náð til hafi rétt til þess að sannfæringu félagsmanna sé sýnd virðing og að þau njóti réttinda og beri skyldur til jafns við skráð trúfélög. „Lögin verða að taka mið af samfélagsbreytingum svo lengi sem slíkar breytingar leiða ekki til viðhorfa sem annaðhvort hafna umburðarlyndi og virðingu eða ganga gegn almennri löggjöf.“

Lítil umræða meðal heimspekinga

Siðfræðistofnun telur helsta vandamálið við frumvarpið snúa að því hvers konar skoðanir samfélagið á að sætta sig við og samþykkja sem gildar lífsskoðanir.

Bent er á, að skilyrði fyrir skráningu lífsskoðunarfélags sé að um sé að ræða félag sem byggist á siðferði og lífsskoðunum óháð trúarsetningum og tengja má við þekkt hugmyndakerfi og siðfræði. Lítil umræða hafi hins vegar farið fram milli íslenskra heimspekinga hvernig mögulegt sé að skera úr um að skoðanir tengist þekktum skoðunum í heimspeki eða siðfræði.

Þá er spurt hvers vegna sú nefnd sem gefa skal álit sitt á umsóknum um skráningu á trú- eða lífsskoðunarfélagi skuli vera undir formennsku fulltrúa lagadeildar. „Starf nefndarinnar mun að öllum líkindum einkum snúa að mati á því hversu vel má tengja lífsskoðanir félaga við þekkta heimspeki og siðræði.“

Er því farið fram á að fulltrúi Sagnfræði- og heimspekideildar Háskóla Íslands veiti nefndinni forstöðu og hafi tvöfalt atkvæðavægi þegar atkvæði nefndarmanna falla jafnt.

Háskóli Íslands.
Háskóli Íslands. Morgunblaðið/Ómar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert