Bæjarstjórn Fjallabyggðar krefst þess að ríkisstjórnin og Alþingi láti reikna út að fullu af hlutlausum aðilum áhrif frumvarpa um fiskveiðistjórnun á skattlagningu útgerðarinnar. Bókun þess efnis var samþykkt á fundi bæjarstjórnar miðvikudaginn 11. apríl með 8 atkvæðum. Einn sat hjá.
Bókunin í heild:
„Vegna fram kominna frumvarpa til laga um stjórn fiskveiða og veiðigjöld, krefst bæjarstjórn Fjallabyggðar þess af ríkisstjórn Íslands og Alþingi, að áhrif fyrirhugaðra breytinga á stjórn fiskveiða og viðbótar skattlagningar útgerðarinnar verði reiknuð út að fullu af hlutlausum aðilum og niðurstöðurnar kynntar opinberlega áður en lengra er haldið.
Bæjarstjórn leggur áherslu á að áhrif m.a. skattlagningar, tímalengd nýtingarleyfa, stækkunar potta, takmarkana á viðskiptum með aflamark, skattlagningu viðskipta með aflahlutdeild og annarra þeirra þátta sem áhrif geta haft á atvinnulíf í Fjallabyggð, Bæjarsjóð Fjallabyggðar og almenning í Fjallabyggð verði könnuð til hlítar og niðurstöðurnar kynntar opinberlega áður en lengra er haldið.“