Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, brást ókvæða við á Alþingi í dag þegar Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, spurði hann hvort hann væri sammála því að fyrirhugaðar breytingar á stjórnarráði Íslands væru að kröfu Evrópusambandsins líkt og fram hefði komið hjá Jóni Bjarnasyni, forveri Steingríms á ráðherrastóli.
Gunnar Bragi hafði fyrr í umræðum á Alþingi í dag rifjað upp að Evrópuþingið hefði sent frá sér ályktun í mars síðastliðnum um umsókn Íslands um aðild að ESB þar sem meðal annars var fagnað fyrirhuguðum breytingum á stjórnarráði Íslands og sameiningu ráðuneyta.
„Varðandi breytingar innan stjórnarráðsins á Íslandi og Evrópusambandið þá kemur það því máli bara ekki nokkurn skapaðan hlut við og ég hef aldrei nokkurn tímann heyrt á það minnst að þeir skiptu sér af því. Enda kæmi það þeim ekkert við hvort sem er. Við erum að endurskipuleggja okkar stjórnarráð og móta framtíðaráherslur um skipan þess og það er alfarið okkar mál. Það getur enginn sýnt fram á að það komi neinum öðrum við né að það hafi verið svoleiðis. Ég þekki ekki til þess. Enda myndi það engu máli skipta, ekki neinu. Við gerum það sem við viljum í þessum efnum, við ráðum því sjálf. Að sjálfsögðu. Hvers konar kjaftæði er þetta? Þetta er svo barnaleg þvæla þegar menn eru komnir út í svona rugl,“ sagði Steingrímur.
Álfheiður Ingadóttir, sem stýrði þingfundinum á Alþingi, sá sig knúna að lokinni ræðu Steingríms að biðja hann að gæta orða sinna: „Forseti vill biðja menn að gæta hófs í orðum sínum hér í ræðustól Alþingis.“