„Loksins hefir sjávarútvegsráðherra lagt fram tvö lagafrumvörp til breytinga á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Þessi frumvörp eru pólitískt möndl og breyta engu í grundvallaratriðum“, segir Magnús Thoroddsen fv. hæstaréttarlögmaður í grein í Morgunblaðinu í dag.
Hér er verr af stað farið en heima setið, segir Magnús og segir frumvörpin ekki uppræta þau mannréttindabrot, sem felast í núverandi kerfi, svo sem mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna sló föstu með úrskurði sínum í kærumáli þeirra Arnar Snævars Sveinssonar og Erlings Sveins Haraldssonar frá 24. október 2007.
Þá segir Magnús m.a. í grein sinni: „Þessi lagafrumvörp sjávarútvegsráðherra ollu mér miklum vonbrigðum. Krumla sérhagsmunanna teygir anga sína víða og nær alla leið inn á hið háa Alþingi, þar sem almannaheill á að ráða gerðum manna og orðum“.