Hólmfríður Sveinsdóttir stjórnsýslufræðingur hefur verið ráðin sem verkefnisstjóri verkefnisins Sóknaráætlanir landshluta, að undangenginni auglýsingu, samkvæmt tilkynningu frá forsætisráðuneytinu.
„Sóknaráætlanir landshluta er eitt af samvinnuverkefnum Stjórnarráðsins, unnið út frá framtíðarsýn og stefnu ríkisstjórnarinnar, Ísland 2020. Markmiðið með sóknaráætlunum landshluta er að stuðla að umbótum í úthlutun almannafjár, framförum í samskiptum stjórnsýslustiga og nýsköpun í opinberri stjórnsýslu. Leiðin að þessum markmiðum er að endurskipuleggja fjárframlög ríkissjóðs til landshluta og um leið að einfalda úthlutun þeirra.
Hingað til hafa sérfræðingar allra ráðuneyta sinnt verkefninu í gegnum stýrinet þeirra. Nú hefur Hólmfríður Sveinsdóttir stjórnsýslufræðingur verið ráðin sem verkefnisstjóri verkefnisins að undangenginni auglýsingu. Hólmfríður er ráðin sem starfsmaður Byggðastofnunar en með aðsetur í Arnarhvoli og vinnur náið með stýrineti ráðuneyta. Hólmfríður er menntaður stjórnsýslufræðingur og býr að mikilli reynslu á sviði byggða- og sveitarstjórnarmála auk þess sem hún þekkir vel til í stjórnsýslunni.
Eitt meginverkefni Hólmfríðar verður að styðja við landshlutasamtökin við gerð sóknaráætlana landshluta þar sem stefnumörkun og áherslur landshluta á sviði atvinnulífs og samfélags í hverjum landshluta koma fram. Verkefnisstjóri mun vinna með öllum landshlutum og aðstoða þá við að ljúka við drög að sóknaráætlunum fyrir árslok 2012. Verkefnisstjóri ásamt fulltrúum úr stýrineti mun heimsækja alla landshluta fyrir sumarið og styðja við vinnu landshlutasamtakanna að gerð sóknaráætlana og framkvæmd,“ segir í fréttatilkynningu frá forsætisráðuneytinu.