Sérkennilegur fundur um samskipti við ESB

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Þetta var mjög sérkennilegur fundur," segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Framsóknarflokksins, um fund utanríkismálanefndar nú í kvöld þar sem samskipti við Evrópusambandið voru á dagskránni og Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra var gestur.

Nefndarmenn eru bundnir trúnaði um það sem fram fer á fundum og Sigmundur Davíð segist hafa spurt sérstaklega hvort upplýsa mætti um efni fundarins en ekki verið veitt formleg heimild til þess. „En ég get sagt að mér fannst að ef við hefðum fengið strax í upphafi fundar upplýsingar sem við fengum ekki fyrr en í lokin, þá hefði umræðan orðið allt önnur."

Búið að mótmæla afskiptum ESB af Icesave?

Árni Þór Sigurðsson þingmaður VG og formaður utanríkismálanefndar sagðist heldur ekki getað greint efnislega frá því sem fram fór á fundinum. Fréttastofa Rúv fullyrti hinsvegar í 22 fréttum að íslensk stjórnvöld  hafi með formlegum hætti mótmælt afskiptum Evrópusambandsins og af Icesave-deilunni fyrir EFTA dómstólnum. Hvorki Sigmundur Davíð né Árni Þór gátu staðfesta hvort þetta væri rétt.

Að sögn Sigmundar Davíðs komu hinar óvæntu upplýsingar, sem gjörbreyttu umræðunni í lok fundar í kvöld, frá Össuri Skarphéðinssyni utanríkisráðherra. Aðspurður hvort það væri hans upplifun að ætlunin hafi verið að halda þessum upplýsingum frá nefndarmönnum sagði Sigmundur: „Mér finnst bara óskiljanlegt af hverju þetta var ekki upplýst í byrjun fundarins, þegar umræðan í raun snerist öll um þetta, en það kom ekki fram fyrr en í lok hans."

Árni Þór Sigurðsson formaður utanríkismálanefndar.
Árni Þór Sigurðsson formaður utanríkismálanefndar. Mbl.is/Jim Smart
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert