Setja milljarð í strætó

mbl.is

Ríkisstjórnin heimilaði í morgun innanríkisráðherra og fjármálaráðherra að ganga frá samningi við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu um að ríkið styrki almenningssamgöngur um einn milljarð króna á ári næstu 10 árin.

Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu Vegagerðin gerðu í vetur með sér viljayfirlýsingu um að efla almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Um er að ræða tilraunaverkefni til næstu 10 ára. Samkomulagið felur í sér að sveitarfélögin skuldbindi sig til að draga ekki úr sínum framlögum í reksturinn.

Í minnisblaði sem lagt var fyrir ríkisstjórnina segir að meginmarkmið og tilgangur tilraunaverkefnis sé að tvöfalda hlutdeild almenningssamgangna í öllum ferðum sem farnar eru á höfuðborgarsvæðinu á samningstímanum. Jafnframt á að vinna að lækkun á samgöngukostnaði heimila og samfélagsins vegna umferðar og umferðarslysa. Þá er rætt um að skapa forsendur til frestunar á stórum framkvæmdum í samgöngumannvirkjum með öflugri almenningssamgöngum sem dragi úr vexti bílaumferðar á stofnbrautakerfinu á annatímum.

Viljayfirlýsingin er í samræmi við eina af tíu lykilaðgerðum aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum, tillögur starfshóps fjármálaráðherra um aðgerðir vegna hækkandi olíuverðs og áherslur í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Gert er ráð fyrir að samningur í samræmi við viljayfirlýsingu gangi eftir í tillögum að samgönguáætlun 2011-2022 og 2011-2014 sem samþykktar voru í ríkisstjórn og þingflokkum og bíða nú 2. umræðu á Alþingi.

Á fjárlögum ársins 2012 eru 350 milljónir króna merktar verkefninu á fyrsta ári þess. Í minnisblaðinu segir að unnið hafi verið út frá því að framlög í þetta verkefni komi ekki af mörkuðum tekjum Vegagerðarinnar, ekki frekar en önnur ríkisframlög í almenningssamgöngur á landi, sjó og í lofti.

Af þessum milljarði fara 900 milljónir til Strætó bs. og 100 milljónir til rekstur almenningssamgangna milli höfuðborgarsvæðisins og byggðakjarna á áhrifasvæði þess. Ganga þarf fyrst frá samningum við viðkomandi landshlutasamtök sveitarfélaga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka