Telur að fylgið muni skila sér aftur

Álfheiður Ingadóttir, alþingismaður.
Álfheiður Ingadóttir, alþingismaður. mbl.is/Sigurður Bogi

„Ég leyfi mér að fullyrða að í þeim hópi eigum við stuðningsmenn þessarar ríkisstjórnar úr öllum flokkum vísan betri stuðning en þarna kom fram þegar nær líður kosningum,“ sagði Álfheiður Ingadóttir, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, í umræðum á Alþingi í dag og vísaði þar til skoðanakönnunar Fréttablaðsins á dögunum á fylgi stjórnmálaflokkanna.

Sagði hún að mörgum hafi verið brugðið að niðurstöður könnunarinnar hafi sýnt að Sjálfstæðisflokkurinn nyti stuðning tæplega helmings þjóðarinnar en þegar betur hafi verið að gáð hafi stór hluti aðspurðra ekki gefið upp afstöðu sína. Sagðist hún telja að stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar ættu þar mikið inni.

Álfheiður benti á að ríkisstjórnin ætti enn eftir að koma í höfn ýmsum stórum stefnumálum sínum. „Flestir sanngjarnir menn viðurkenna þó að það hefur mjög mikið áunnist á þessum þremur árum sem þessi ágæta stjórn hefur verið við völd. Um það vitna allar opinberar tölur og sanngjarnir menn í flestum flokkum staðfesta það.“

Hún bætti við að meira að segja Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, hefði staðfest það í viðtali í Kastljósinu í gær þar sem hann hefði „lýst því yfir að allir mælikvarðar væru lakari í Evrópusambandinu.“ Sagði hún það hafa verið athyglisverða yfirlýsingu frá honum.

Álfheiður fór yfir helstu stefnumál ríkisstjórnarinnar sem hún hefði í hyggju að ljúka fyrir kosningar og nefndi meðal annars að stjórnin ætlaði sér að koma á nýrri stjórnarskrá. „Ég á von á því að þegar þessu þingi lýkur og þingið hefur lokið þeim verkefnum sem ég hef nú hér talið upp og fyrir liggja að þá muni fleiri lýsa stuðningi við þessa ágætu ríkisstjórn heldur en í síðustu könnun.“

Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði ræðu Álfheiðar hafa verið nokkuð fróðlega og skemmtilega. Hún hefði með ræðunni verið að þurrka tárin og hugga sig sjálfa yfir þeirri „hraklegu útreið“ sem ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir hefðu fengið í skoðanakönnunum. „Þá er það einfaldlega þannig að þeir sem ekki eru búnir að gera upp hug sinn, þeir muni allir fylkja sér um vinstri-græna. Þetta er huggunin.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert