Vestfirðingur fórst með Titanic

Titanic á leið í hina örlagaríku ferð árið 1912.
Titanic á leið í hina örlagaríku ferð árið 1912. AFP

Álftfirðingurinn Bjarni Guðmundur Ásgeirsson var meðal þeirra sem létust er skemmtiferðaskipið Titanic fórst. „Þrátt fyrir landfræðilega einangrun hafa Íslendingar gjarnan verið víðförlir og hafa Vestfirðingar þar verið engin undantekning. Nægir að nefna Álftfirðinginn Jón Ólafsson Indíafara (1593-1679) í því sambandi. Í tilefni af því að á sunnudaginn var, 15. apríl, voru 100 ár síðan risaskipið Titanic fórst eftir árekstur við borgarísjaka, svo sem víðfrægt er orðið af bókum og kvikmyndum, er ástæða til að rifja það upp að þar kom einnig við sögu sveitungi Jóns Indíafara, Bjarni Guðmundur Ásgeirsson frá Kleifum í Seyðisfirði, fæddur 4. ágúst 1870 og því 41 árs að aldri þegar hann fórst,“ segir Ólafur Hannibalsson, ritari Djúpmannatals, en málið er rifjað upp á fréttavefnum Bæjarins besta.

Að sögn Ólafs er um Bjarna nú nánast ekkert vitað utan tvær línur í Djúpmannatali, þar sem fram kemur að hann hafi ungur farið í siglingar, verið lærður stýrimaður og skipstjóri á Indíafari. Geta má þess sér til að hann hafi verið í áhöfn Titanic fremur en farþegi, en um það verður engu slegið föstu að svo stöddu.

Ólafur Hannibalsson hefur beðið Bæjarins besta að grennslast eftir því meðal lesenda sinna, hvort einhverjir nákomnir ættingjar Bjarna séu þar á meðal og þá hvort þeir búi yfir einhverri frekari vitneskju um ævi og örlög Bjarna. Bjarni var yngstur ellefu barna Ásgeirs Magnússonar, bónda á Kleifum í Seyðisfirði, áður í Kálfavík og á Hvítanesi og konu hans Rannveigar Ólafsdóttur frá Skjaldfönn. Ásgeir var fæddur á Eyri í Seyðisfirði 1828, sonur síra Magnúsar Þórðarsonar prests í Ögurþingum og er frá honum mikil ætt nafnkunnra manna og kvenna. Meðal systkina Bjarna Guðmundar var Arnfríður húsfreyja á Ísafirði, kona Sturlu Friðriks Jónssonar skipstjóra á Ísafirði. Arnfríður lést í Reykjavík 1940. Bróðir Bjarna var Magnús læknir á Þingeyri, faðir Ásgeirs vélstjóra í Reykjavík.

Ólafur Hannibalsson er nú að leggja síðustu hönd á verk, sem fengið hefur nafnið Djúpmannatal og inniheldur æviskrár þeirra sem haldið hafa heimili í innhreppum Djúpsins frá manntalinu 1801 til dagsins í dag.

Frétt BB

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert