Árni Þór Sigurðsson, þingmaður Vinstri grænna og formaður utanríkismálanefndar, sagðist á Alþingi í dag telja, að ef samningsniðurstaða fáist í aðildarviðræður við Evrópusambandið sé það Alþingis að taka ákvörðun um að koma samningnum í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Þetta sagði Árni Þór við fyrirspurn Illuga Gunnarssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokks. Illugi vísaði til orða forsætisráðherra nýverið sem sagði á þingi, að niðurstaðan um það hvort farið verði í þjóðaratkvæðagreiðslu ráðist fyrst og fremst á því að svo hagstæðir samningar náist að þeir verði lagðir fyrir þjóðina. Hann sagði ráðherra hafa haldið því fram, að einhvers konar mat fari fyrst fram á samningunum áður en tekin verði ákvörðun um hvort leggja eigi hann fyrir þjóðina.
Illugi spurði hvort Árni Þór teldi það eðlilegt að það sé ríkisstjórnin sem sjái um þetta mat eða hvort það verði Alþingi sem taki afstöðu til samningsins.
Árni Þór vísaði til nefndarálits meirihluta utanríkismálanefndar um málið en í því kemur fram að þegar samningaviðræðum er lokið sé samningur undirritaður með fyrirvara, sem leiðir til þess að hann sé ekki bindandi. „Ég vil skilja þetta þannig, að ef það náist samningsniðurstaða verði gerð grein fyrir henni á Alþingi og Alþingi taki ákvörðun um að koma henni í þjóðaratkvæði.“ Hann sagði að það gæti ekki verið matsatriði hjá ríkisstjórninni. „Að þessu gefnu tel ég það sjálfgefið að það verði þjóðaratkvæðagreiðsla, náist samningar.“
Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, sagði orð Árna Þórs alvarleg tíðindi. „Þannig að meirihluti Samfylkingar og Vinstri grænan ætla að taka ákvörðun um það hvort þetta fari í þjóðaratkvæðagreiðslu.“ Hún sagði sjötíu prósent þjóðarinnar á móti aðild að Evrópusambandinu en því miður væri annar meirihluti á Alþingi.