Dæmdur fyrir meiðyrði

Héraðsdómur Reykjaness í Hafnarfirði
Héraðsdómur Reykjaness í Hafnarfirði Ómar Óskarsson

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt Ragnar Önundarson til að greiða Friðriki Hallbirni Karlssyni og Árna Haukssyni hvorum fyrir sig 300 þúsund krónur í miskabætur vegna ummæla sem hann lét falla í blaðagreinum sem birtust í Morgunblaðinu. Einnig er Ragnari gert að greiða þeim 600 þúsund krónur í málskostnað og 200 þúsund til að kosta birtingu dómsins í opinberu blaði.

Friðrik og Árni höfðuðu mál og kröfðust þess að tiltekin ummæli í tveimur blaðagreinum yrðu dæmd dauð og ómerk. Í greinunum fjallaði Ragnar um kaup þeirra á stórum hluta í Húsasmiðjunni á árinu 2002, sem síðan var seldur í byrjun árs 2005.

Fyrri greinin birtist undir aðalfyrirsögninni: „Banki skilur neytendur eftir í höndum „féfletta““ og hin síðari: „Borgarfulltrúi heldur á vit ævintýra.“

Í niðurstöðu dómsins segir að við lestur greinarinnar geti engum dulist að Ragnar fullyrði að Árni og Friðrik séu í „sjálftökuliði“ sem hafi stundað „stórfelldan þjófnað“. Enn fremur hafi þeir eignist Húsasmiðjuna án nokkurs eiginfjárframlags og hafi átt „vitorðsmenn“ í banka og/eða í fasteignafélagi. Loks hafi Árni og Friðrik selt fasteignir Húsasmiðjunnar á „yfirverði“ og notað söluandvirðið til „að greiða sjálfum sér stórfelldan arð.“ Þannig hafi þeir „féflett“ Húsasmiðjuna og hafi skuldir sem ekki komu sjálfum rekstrinum við sligað félagið sem „féll í faðm bankans.“

Dómurinn telur að Ragnar hafi sönnunarbyrði fyrir sannindum ummæla sinna, og að mati dómsins eru allar tilvitnaðar fullyrðingar Ragnars rangar og ósannaðar. Þá hafi hann ekki sýnt fram á það að umþrættar blaðagreinar hans séu fræðandi og upplýsandi og auki skilning almennings á fjölmörgum þáttum viðskiptalífsins og hvað þá að skrif stefnda séu liður í almennri umræðu og umfjöllun um skuldsettar yfirtökur og efnahagshrun.

Voru því ummæli í greinunum dæmd dauð og ómerk og Ragnar dæmdur til að greiða miskabætur.

Ragnar Önundarson
Ragnar Önundarson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert