Enn að störfum í Lúxemborg

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari.
Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari. mbl.is/Ómar

Starfsmenn embættis sérstaks saksóknara eru enn að störfum í Lúxemborg en í gær var gerð húsleit í Landsbankanum í Lúxemborg og tveimur öðrum stöðum í tengslum við rannsókn mála tengdra Landsbankanum sem hófst í janúar í fyrra.

Sex starfsmenn embættis sérstaks saksóknara tóku þátt í húsleitunum ásamt 24 lögreglumönnum í Lúxemborg.

Mjög rík bankaleynd ríkir í Lúxemborg og getur tekið langan tíma að flytja gögn frá landinu. Þegar lögregla hefur lokið við að fara yfir gögnin eru þau send til rannsóknardómara sem kanna hvort ekki sé rétt staðið að rannsókninni, það er gögnin séu í samræmi við beiðni sem fékkst fyrir aðgerðum.

Að sögn Ólafs Þórs Haukssonar, sérstökum saksóknara, eru enn að berast gögn til Íslands vegna fyrri rannsókna embættisins í Lúxemborg, fyrir ári síðan. Hann segir ómögulegt að segja til um hversu langan tíma taki að fá þessi gögn sem hald var lagt á í gær en telur að nú muni ekki líða jafn langur tími nú.

Í janúar í fyrra hóf embættið rannsókn á fjórum málum tengdum bankanum. Í fyrsta lagi meintri markaðsmisnotkun bankans með hlutabréf útgefin af honum. Í öðru lagi lánveitingum til félaganna Hunslow S.A., Bruce Assets Limited, Pro-Invest Partnes Corp. og Sigurðar Bollasonar ehf. til kaupa á hlutabréfum í bankanum. Í þriðja lagi kaupum Landsbanka Íslands á lánasafni Landsbankans í Lúxemborg og í fjórða lagi kaupum á hlutabréfum í bankanum af hálfu félaga sem héldu um kauprétti starfsmanna bankans og lánveitingar til þeirra félaga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert