Ísfélag Vestmannaeyja fékk skipið Heimaey VE-1 formlega afhent í Síle í gær, tæpu fjóru og hálfu ári eftir að samningur um smíði þess var undirritaður.
Upphaflega stóð til að afhenda skipið sumarið 2010 en endurskoða þurfti þær fyrirætlanir þegar miklir jarðskjálftar gengu yfir Síle í lok febrúar það ár og ollu gríðarlegu tjóni, m.a. í skipasmíðastöðinni ASMAR.
Sjö manna íslensk áhöfn, ásamt fulltrúa frá skipasmíðastöðinni, mun sigla skipinu heim en til stendur að það leggi úr höfn í Síle á morgun, sumardaginn fyrsta, og komi til Vestmannaeyja eftir um þrjár vikur.
Heimaey VE-1 er af nýrri kynslóð uppsjávarskipa, er 71,1 metra langt og 14,4 metra breitt en burðargeta þess er rúmlega 2.000 tonn. Hönnun skipsins miðaði að því að gera orkunotkun eins hagkvæma og kostur væri, meðferð aflans sem ákjósanlegasta og aðbúnað áhafnarinnar sem bestan en smíði þess er fjárfesting upp á hátt í fjóra milljarða.