Lýsti yfir vantrausti á ráðherra

Gunnar Bragi Sveinsson
Gunnar Bragi Sveinsson Ómar Óskarsson

Utanríkisráðherra var harðlega gagnrýndur í upphafi þingfundar Alþingis í dag. Fóru fremstir formaður og þingmenn Framsóknarflokks sem meðal annars sökuðu ráðherra um ósannindi í fjölmiðlum og brotið trúnað utanríkismálanefndar. Þingflokksformaður flokksins lýsti yfir  vantrausti á ráðherrann.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokks, hóf leikinn og hvatti þingmenn stjórnarliðsins til að hafa hemil á utanríkisráðherra sem sýnt hafi undarleg viðbrögð þegar rætt sé um Icesave og aðild að Evrópusambandinu. Það hafi keyrt um þverbak í gær og í dag þegar ráðherrann „festist í tómu skítkasti, útúrsnúningum, skæting í stað þess að svara í fullri alvöru.“

Hann sagði Össur Skarphéðinsson hafa ráðist á þingmenn, sakað framsóknarmenn um að leka upplýsingum, sem sé ekki í fyrsta skipti. Þá krafðist hann þess að þingmenn fari að veita ráðherranum aðhald.

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, greip boltann á lofti og átaldi utanríkisráðherra í málinu. Og hvatti hann að setjast í helgan stein.

Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Framsóknarflokks, sagði það virðast vera daglegt brauð að ráðherrar og ríkisstjórn segi ósatt í málinu. Hann sagði það hljóta vera sanngjarna kröfu að fá að vita hvaða upplýsingum var komið til Evrópusambandsins vegna meðalgöngu sambandsins að Icesave-málinu og hvernig.

Gunnar Bragi Sveinsson, formaður þingflokks Framsóknarflokks, sagði Ísland hafa ráðherra sem kjósi að fara í fjölmiðla og segja ósatt. „Segja hluti um þingmenn sem eru lygi.“ Hann sagði óþolandi að sitja undir slíkum ósannindum sem þeim sem utanríkisráðherra hafi gert sig sekan um í fjölmiðlum, þ.e. að segja að Framsóknarmenn hafi lekið trúnaðarupplýsingum af fundi utanríkismálanefndar í gærkvöldi. 

Þá sagði Gunnar Bragi að það sé að koma á daginn, að óheppilegt sé að utanríkisráðherra sé bæði með á sinni könnu málsvörn Íslands í Icesave-málinu og aðildarviðræður við Evrópusambandinu. Það hafi verið eins og framsóknarmenn óttuðust. „Ég lýsi yfir algjöru vantrausti á utanríkisráðherra.“

Sá eini sem kom utanríkisráðherra til varnar var Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar. Hann sagði ómaklegt hvernig vegið væri að ráðherranum. Árni sagði suma þingmenn ekki geta skilið Evrópusambandið frá nokkru máli í umræðum á Alþingi, en það sé ekki utanríkisráðherra. Hann sagði mikilvæga samstöðu hafa myndast um það í utanríkismálanefnd að halda aðskildum pólitískum og lagalegum þáttum í Icesave-málinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert