Héraðsdómur Reykjavíkur felldi í dag úr gildi ákvörðun ríkisins um að svipta arkitektastofuna Einrúm ehf, fyrstu verðlaunum í hönnunarsamkeppni um hjúkrunarheimili í Fjarðarbyggð. Enn fremur féllst dómurinn á að ríkið væri skaðabótaskylt í tilefni þess að samið var við annan keppanda um hönnunina.
Einrúm ehf höfðaði mál gegn íslenska ríkinu, sveitarfélaginu Fjarðabyggð og arkitektastofunni Studio Strik ehf í kjölfar hönnunarsamkeppni um hjúkrunarheimilið í Fjarðabyggð. Einrúm ehf sigraði samkeppnina í júní 2010 og hlaut 3,5 milljónir í verðlaunafé.
Arkitektastofan Studio Strik ehf, sem hlaut önnur verðlaun í samkeppninni, kærði hinsvegar úrslitin, til kærunefndar útboðsmála, vegna ætlaðra tengsla milli eins úr dómnefndinni við sigurvegarann. Samningsferlið var þá stöðvað og í kjölfarið, þann 14. desember 2010, var ákveðið að svipta Einrúm verðlaununum. Þess var jafnframt krafist að stofan endurgreiddi ríkinu verðlaunaféð.
Héraðsdómur Reykjavíkur komst í dag að þeirri niðurstöðu að ríkið hafi ekki verið til þess bært að svipta Einrúm fyrsta sæti í hönnunarsamkeppninni. Sú ákvörðun var því felld úr gildi. Arikitektastofan var jafnframt sýknuð af kröfu ríkisins um endurgreiðslu verðlaunafjárins. Þá var viðurkennd skaðabótaskylda íslenska ríkisins og það dæmt til að greiða 1,5 milljón krónur í málskostnað.
Kröfum á hendur Studio Striki ehf og Fjarðabyggð var hinsvegar vísað frá dómi.