Stjórn Samstöðu flokks lýðræðis og velferðar í Reykjavík fer fram á að ríkisstjórnin ljúki viðræðum um aðild Íslands að Evrópusambandinu fyrir 1. ágúst 2012. Verði samningaferlinu ekki lokið fyrir þann tíma krefst stjórnin þess að þjóðaratkvæðagreiðsla um það hvort halda eigi samningaferlinu áfram fari fram eigi síðar en í nóvember 2012.
Þetta kemur fram í ályktun stjórnarinnar sem samþykkt var á fundi hennar í gær.
„Afar brýnt er að viðræðunum verði lokið á þessu ári til að þær skyggi ekki á brýn kosningamál í næstu alþingiskosningum. Þessi kosningamál eru, að mati stjórnar Samstöðu Reykjavík lausn á óásættanlegri skuldastöðu heimila og smáfyrirtækja og leið til að afnema gjaldeyrishöftin sem tryggir almenna velferð og sjálfbærni efnahagslífsins.“
„Stjórn Samstöðu-Reykjavík er þeirrar skoðunar „að við núverandi aðstæður sé hagsmunum Íslands best borgið utan ESB“ og telur ennfremur að ríkisstjórninni beri skylda til að efna loforð sín um að samningaviðræðurnar myndu ekki taka lengri tíma en eitt og hálft ár.“
Stjórnin telur að nokkrir atburðir hafi grafið undan upphaflegum forsendum aðildarviðræðnanna:
„Evrópusambandið hefur nú í hótunum um að beita Ísland viðskiptaþvingunum til að stöðva lögmætar og ábyrgar makrílveiðar Íslands innan eigin efnahagslögsögu. Evrópusambandið hefur einnig tekið formlega stöðu gegn sjónarmiðum og hagsmunum Íslands í Icesave deilunni. Aðildarferlið átti að taka eitt og hálft ár en hefur nú dregist í tvöfalt lengri tíma og endirinn ekki í sjónmáli."
Að auki tiltekur stjórn Samstöðu að umsóknin hafi verið umdeild frá upphafi og að aðlögunarferlið dragi dýrmætan tíma, fjármuni og orku stjórnvalda frá brýnni verkefnum. Evrópusambandið glími sjálft við gjaldmiðils- og skuldakreppu sem ekki er séð fyrir endann á.