Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra og varaformaður Vinstri grænna sagði á opnum fundi Samfylkingarinnar í Árborg að hún kysi einhvers konar samfylkingu Vinstri grænna og Samfylkingarinnar í næstu kosningum.
Frá þessu segir í forsíðufrétt blaðsins Selfoss - Suðurland sem kom út í dag.
Aðspurð um samvinnu og jafnvel sameiningu jafnaðarmanna sagði Katrín mikinn samhljóm með flokkunum. Það væri ágreiningur milli flokkanna um aðild að Evrópusambandinu - sem væri ekkert launungarmál - en að miklu meira sameinaði en sundraði. Hún sjálf hefði alltaf lagt áherslu á friðarmálin.
Katrín sagði ennfremur að það hefði tekið tíma að draga upp nýjar línur í málaflokkum sem heyra undir menntamálaráðuneytið eftir 18 ára samfellda setu ráðherra úr Sjálfstæðisflokknum í því ráðuneyti.
Spennandi tímar væru framundan og hún hefði brennandi áhuga og hefði mikinn metnað fyrir sitt ráðuneyti.