„Wipe-out-braut“ í Laugardalslauginni

Pottarnir við Laugardalslaug hafa m.a. fengið andlitslyftingu.
Pottarnir við Laugardalslaug hafa m.a. fengið andlitslyftingu. Af vef Reykjavíkurborgar

Laugardalslaug opnar að nýju á morgun, sumardaginn fyrsta, eftir þriggja daga lokun vegna framkvæmda. Tíminn síðustu daga var nýttur vel við að koma fyrir nýjum leiktækjum, mála potta, tengja nuddpott, koma fyrir nýju öryggishandriði, fjarlægja burðarvirki undan nýrri göngubrú, auk þess sem yfirbreiðslur yfir framkvæmdasvæði hafa flestar hverjar verið fjarlægðar, en tjaldað var yfir vinnusvæði í vetur til að hægt væri að vinna að endurbótum við laugina. Tæma þurfti laugina á mánudag vegna framkvæmdanna og var tækifærið að sjálfsögðu nýtt og laugin þrifin, segir í frétt á vef borgarinnar.

Það kennir margra þrauta í leiktækjunum sem borgarbörnin geta notið í Laugardalslaug á sumardaginn fyrsta og má þar nefna ,,jakahlaupabraut“ („wipe-out-braut“) og Slöngubraut fyrir yngstu gestina. Einnig hefur verið komið fyrir skvettiskálum og nýjum körfum við barnalaugina. Laugardalslaug verður opin á sumardaginn fyrsta frá kl. 8 - 22 og er það sami tími og opið er um helgar.

Endurbætur á Laugardalslaug hafa gengið vel. Ákveðið var að hafa laugina opna yfir allan framkvæmdatímann ef frá eru taldir þrír dagar í þessari viku og hafa gestir sýnt mikla þolinmæði. Nú geta gestir gengið frjálsar um bakka laugarinnar, sem lagðir hafa verið mjúku gúmmíefni til þæginda. Gæði breytinganna á bökkunum koma þó enn betur í ljós næsta vetur því undir lúrir ný snjóbræðsla.

Þó mörgum verkþáttum sé nú lokið er eftir að ganga frá nýjum sjópotti sem kemur við stúkuna austanmegin og er búist við að því verki ljúki um miðjan maí. Framkvæmdir við sjópottinn trufla lítið starfsemi í lauginni, enda eru verktakar komnir í góða þjálfun við að sýna tillitssemi og sveigjanleika við störf sín. Þá er eftir að ganga frá nýju handriði og mjúku yfirborði á göngubrúna, sem búið er að endurgera.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert