Áform argentínskra stjórnvalda um að þjóðnýta hlut spænska olíufyrirtækisins Repsol í argentínska olíufélaginu YPF hefur valdið hörðum deilum við Spán og kallað yfir þau gagnrýni Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
Spænsk stjórnvöld hótuðu í gær að bregðast við af fullri hörku og vöruðu við því að góð samskipti ríkjanna væru í hættu. Sagði Jose Manuel Soria, iðnaðarráðherra Spánar, að Spánverjar hygðust bregðast við á ýmsum sviðum, allt frá milliríkjasamskiptum til viðskipta og iðnaðar- og orkumála.
„Þetta eru vondar fréttir fyrir Spán, en hræðilegar fréttir fyrir Argentínu,“ sagði Jose Manuel Garcia-Margallo, utanríkisráðherra Spánar, og bætti við að Argentínumenn væru að skjóta sig í fótinn. Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, kvaðst hafa „verulegar áhyggjur“ af ákvörðun Argentínu og talsmaður ESB sagði hana „ólöglega“.
Felipe Calderon, forseti Mexíkó, lét sitt ekki eftir liggja og sagði að ákvörðunin sýndi „litla tilfinningu fyrir ábyrgð og skynsemi“. Mexíkanska ríkiseinokunarolíufélagið Petroleos Mexicanos eða Pemex á tæp 10% í Repsol.
Hlutabréf í Repsol hafa fallið í verði eftir að Argentínumenn sögðust ætla að taka hlut þeirra eignarnámi. Viðskipti með hlutabréf í YPF voru stöðvuð á hlutabréfamarkaðnum í New York á mánudag. Argentínsk stjórnvöld hyggjast taka til sín 51% hlut í YPF. Repsol á 57,4% hlut í fyrirtækinu og myndi því aðeins eiga rúmlega 6% hlut eftir. Matsfyrirtækið Moody's lækkaði einkunn YPF úr B3 í Ba3 og varaði við því að lánshæfismatið gæti lækkað enn frekar.
Cristina Kirchner tilkynnti ákvörðunina um eignarnámið á mánudag. Áætlunin er hluti af lagafrumvarpi, sem hefur verið lagt fram á argengtínska þinginu og er fastlega búist við að það verði samþykkt.
Eignarnámið gæti einnig haft áhrif á matið á Repsol vegna þess að fyrirtækið hafði fjórðung tekna sinna af YPF í fyrra og 16% skulda Repsol tengjast félaginu.
Antonio Brufau, framkvæmdastjóri Repsol, sagði að Argentínu yrði refsað fyrir yfirtökuna og bætti við að þess yrði farið á leit að fá andvirðið bætt að fullu. Fyrirtækið metur hlut sinn á 10,5 milljarða dollara (1.340 milljarða króna). Brufau sagði að eignanámið væri „ólögleg og óréttlætanleg aðgerð“ og Repsol myndi leita réttar síns fyrir alþjóðlegum dómstólum.
Dagblaðið Financial Timesgreindi frá því í gær að Repsol hefði reynt að selja kínversku olíufélagi, Sinopec, hlut sinn í YPF skömmu áður en lýst var yfir að það yrði tekið eignarnámi. Repsol hugðist fá meira en 10 milljarða dollara fyrir hlutinn og ætlaði ekki að segja argentínskum stjórnvöldum frá málinu fyrr en salan væri frágengin. Brufau sagðist hafa reynt að ræða breytingu á eignarhaldi við Cristinu Kirchner, forseta Argentínu, en „hún hafði ekki tíma til að hitta mig“. Sinopec og Repsol vinna nú þegar saman í Brasilíu. Kínverska fyrirtækið á 40% hlut í dótturfyrirtæki Repsol þar.
Stjórn Argentínu kennir YPF alfarið um samdráttinn í framleiðslu og segir að fyrirtækið hafi ekki lagt nægilegt fé í framkvæmdir. Bent er á að ekki skorti auðlindirnar. Að mati bandarískra orkumálayfirvalda eru Argentínumenn í þriðja sæti í heiminum á eftir Bandaríkjamönnum og Kínverjum hvað snertir forða af vinnanlegri olíu og gasi úr tjörugrjóti. YPF hefur sagt að sennilega sé hægt að vinna 23 milljarða tunna af olíu úr tjörugrjóti í Argentínu.
Í mars var leyfi YPF til olíuvinnslu í héraðinu Chubut dregið til baka og sagði ríkisstjórinn til skýringar að í þrjú ár hefði félagið ekki borað einn einasta brunn.
Sebastian Eskenazi, framkvæmdastjóri YPF, segir hins vegar að stjórnvöld beri sjálf ábyrgð á þessu ástandi og forustumenn annarra einkarekinna orkufyrirtækja í landinu taka undir það. Að þeirra hyggju eru háir skattar, þak á orkuverð til heimila og ófyrirsjáanlegar reglubreytingar á borð við afnám skattafsláttar vegna útgjalda til framleiðslu dragbítur á fjárfestingu. Stjórnvöld geti sjálfum sér um kennt að framleiðslan hafi ekki aukist síðan á tíunda áratug 20. aldar.
Gagnrýnendur stjórnarinnar velta einnig fyrir sér hvernig hún ætli að verða sér úti um fjármagn til að vinna olíu og gas. Efast ýmsir um hæfi stjórnvalda til að reka olíufyrirtækið og vísa til viðvarandi vandamála ríkisflugfélagsins Aerolineas Argentinas SA, sem var þjóðnýtt fyrir nokkrum árum.
Argentínska olíufélagið YPF var stofnað árið 1922 og var þá alfarið í ríkiseigu. Félagið var einkavætt að hluta árið 1993. Spænska félagið Repsol YPF náði ráðandi hlut í félaginu 1999 og á nú 57% hlut.