Fangelsisstofnun mun frá 1. júlí nk. banna föngum að nota tölvur og flakkara í lokuðum fangelsum. Þó má gera undantekningar og heimila fartölvur í klefum ef búnaðurinn er notaður til náms. Þetta kemur fram í vikublaðinu Akureyri í dag.
Til öryggisfangelsa teljast Litla Hraun, Fangelsið við Kópavogsbraut og Fangelsið á Akureyri.
Gestur Davíðsson, varðstjóri í fangelsinu á Akureyri, segir að ekki sé búið að kynna föngum á Akureyri að fullu þessa fyrirhuguðu skerðingu á persónuháttum þeirra. Fangi sem blaðið ræddi við vissi þó af því að til stæði að þrengja heimildir fanga en sagðist ekki vilja trúa því að samskiptin við umheiminn yrðu skert með þessum hætti.
Tveir tölvupungar voru gerðir upptækir í leitarrassíu í fangelsinu á Akureyri í síðustu viku. Þar hefur mátt fara á netið í skólastofu en bannað að fara á klámsíður og Facebook svo dæmi séu tekin. „Við viljum ekki að fangar hangi á Facebook, séu að stýra glæpum, handrukka, selja eða „læka“ eitt eða annað meðan þeir eru hér. Öðru máli gegnir um uppbyggilega tölvunotkun,“ segir Gestur.