Íslensk stjórnvöld hafa komið athugasemdum á framfæri við Evrópusambandið (ESB) vegna framgöngu þess vegna Icesave-málsins sem nú er komið fyrir EFTA-dómstólinn.
Sem kunnugt er óskaði ESB eftir leyfi til meðalgöngu í Icesave-málinu. Í athugasemdinni felst að íslensk stjórnvöld telji þessa framkomu ESB óeðlilega gagnvart ríki sem á í viðræðum um aðild að sambandinu.
Kristján Guy Burgess, aðstoðarmaður utanríkisráðherra, sagði að haft hefði verið í sambandi við sendiherra ESB á Íslandi, sem var staddur erlendis, og var haldinn fundur embættismanna með staðgengli sendiherrans til að koma athugasemdinni á framfæri. Einnig komu embættismenn athugasemdinni á framfæri við fulltrúa framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í Brussel.