Greenstone ehf. hefur hætt við áform sín um byggingu gagnavers á Íslandi. Eftir að hafa skoðað nokkra álitlega staði víða um land frá árinu 2008 varð Blönduós fyrir valinu, þar sem gerð var samstarfsyfirlýsing með heimamönnum um uppbygginguna, en hún er nú runnin út.
Í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að viðskiptavinur Greenstone, sem áformaði byggingu gagnaversins með félaginu, vinnur nú að því að láta reisa gagnaver í Bandaríkjunum.
Sveinn Óskar Sigurðsson, fv. talsmaður Greenstone á Íslandi, staðfesti þessa ákvörðun í samtali við Morgunblaðið. Margt hefði komið þar til, einna helst óviljug ríkisstjórn við að vinna með félaginu að þessum áformum.