Skuldir heimila aukast stöðugt

Mikið var byggt í Kópavogi á árunum fyrir efnahagshrunið.
Mikið var byggt í Kópavogi á árunum fyrir efnahagshrunið. Ómar Óskarsson

Nýjar tölur frá efnahags- og viðskiptaráðherra undirstrika að stjórnvöld hafa náð litlum árangri í aðgerðum sínum vegna skuldavanda heimila. Þetta fullyrðir Lilja Mósesdóttir, formaður Samstöðu, og rökstyður mál sitt með hinum nýju gögnum um skuldastöðu heimila. Verðtryggð lán nálgast 700 milljarða.

Gögnin sem Lilja vitnar til koma fram í svari Steingríms J. Sigfússonar, efnahags- og viðskiptaráðherra, við fyrirspurn Kristjáns Þórs Júlíussonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Er rætt við Kristján um málið í föstudagsblaði Morgunblaðsins.

Hægt er að nálgast svar ráðherrans í heild sinni hér en í því eru skuldirnar m.a. flokkaðar eftir því hvort þær eru verðtryggðar eða óverðtryggðar. 

Leiðir svar ráðherrans í ljós að höfuðstóll verðtryggðra lána var 692 milljarðar í lok síðasta árs en var 554 milljarðar árið 2007. Verðbætur skýra þessa hækkun að miklu leyti en þær hafa farið úr 71,5 milljörðum í 214,8 milljarða.

Óverðtryggðu lánin hafa einnig hækkað mikið eins og rakið er í Morgunblaðinu.

Verðtryggðu lánin hækka mikið

Lilja vitnar til gagna í svarinu sem er fjórar blaðsíður á lengd.

„Eins og fram kemur í töflu 5, 6 og 7, þá er fjármagnskostnaður (vextir og verðbætur) verðtryggðar lána mun þyngri hjá þeim sem voru með verðtryggð lán samanborðið við þá sem tóku gengistryggð eða óverðtryggð lán. Ofan á höfuðstól verðtryggðra lána að upphæð 464,77 milljarðar árið 2011 lögðust 227,28 milljarðar í fjármagnskostnað sem hækkaði upphæð þeirra um tæp 50%.

Fjármagnskostnaður óverðtryggðra lána hækkaði upphæð þessara lána hins vegar ekki um nema 1% og 2% í tilfelli gengistryggra lána. Skýringin á þessum mikla mun er að hluti fjármagnskostnaðar verðtryggðra lána er ekki staðgreiddur eins ef um er að ræða óverðtryggð eða gengistryggð lán heldur leggst hann á upphæð höfuðstólsins og síðan eru reiknaðir vextir af þeirri upphæð. Þannig verða til vaxtavextir,“ segir Lilja og víkur að óverðtryggðu lánunum.

Getur sveiflast mikið

„Greiðslubyrði óverðtryggðra lána getur sveiflast mikið, þar sem bæði vextirnir og verðbæturnar eru staðgreiddar. Það eru því oft aðeins tekjuhá heimili sem ráða við breytilega greiðslubyrði óverðtryggðra lána. Tekjulág heimili neyðast hins vegar til að kaupa jafnari greiðslubyrði verðtryggðra lána dýru verði eða á vaxtavöxtum. Slíkir vaxtavextir safnast upp og gera skuldsetningu heimila með verðtryggð lán smám saman ósjálfbæra. Flest heimili reyna þó að selja eign sína áður en til þess kemur en það getur reynst erfitt þegar lítil hreyfing er á fasteignamarkaði,“ segir Lilja og gerir að umtalsefni misjafna stöðu skuldara.

Vilja ekki leiðrétta lánin

„Munur milli þeirra sem tóku verðtryggð lán og hinna sem tóku gengistryggð eða óverðtryggð lán er orðinn mikill ekki síst eftir að Hæstiréttur dæmdi gengistryggingu ólöglega. 10 milljón kr. lán sem tekið var 2002 stæði nú í tæpum 8 milljónum ef tekið hefði verið ólöglegt gengistryggt lán en í rúmum 15 milljónum ef verðtryggt lán hefði verið tekið. Hér munar 7 milljónum sem stjórnarmeirihlutinn vill ekki leiðrétta um leið og verðtryggingin er afnumin. Auk þess fengu þeir voru með gengislán vaxtabætur og sérstaka vaxtaniðurgreiðslu á grundvelli endurútreikna sem nú hafa verið dæmir ólöglegir.

Ríkisstjórnin ætlar ekki að krefja þá sem tóku ólögleg gengistryggð lán um endurgreiðslu á þessum vaxtabótum og sérstakri vaxtaniðurgreiðslu. Þetta mun ýta undir óánægju þeirra sem eru með verðtryggð lán og hafa hvorki fengið höfuðstólsleiðréttingu né sambærilega niðurgreiðslu frá ríkinu á fjármagnskostnaðinum eins þeir sem tóku gengislán.

Eftir situr fjölmennur hópur sem þorði ekki að taka gengislán og taldi öruggara að taka verðtryggð lán. Það fólk fær ekki aðeins meiri hækkun á höfuðstólnum heldur minni aðstoð frá ríkinu. Þetta er óréttlæti sem ekki er hægt að una við. Ríkisstjórnin einblínir núna á að draga úr greiðsluvandanum en skuldavandinn er miklu alvarlegra mál. Skuldarar sem hafa neikvæðan höfuðstól geta ekki selt húsnæðið til að losna úr vandanum eins og þeir geta gert sem eru í greiðsluvanda,“ segir Lilja og gerir 110% leiðina svonefndu að umtalsefni.

Úrræðin fá falleinkunn

„Í nýlegri greiningu Seðlabankans á skuldavanda heimilanna kemur fram að almenn leiðrétting lána muni fækka heimilum í greiðsluvanda um 7.600 og álíka mörgum úr skuldavanda eða samtals um 15.000 heimilum. Til samanburðar má geta þess að 110% leiðin og sérstök vaxtaniðurgreiðsla fækkuðu heimilum í greiðsluvanda aðeins um 1.450.  Í upphafi árs 2011 innleiddi ríkisstjórnin 110% leiðina og sérstaka vaxtaniðurgreiðslu til að aðstoða skuldsett heimili sem voru í mestri neyð.

Skuldaúrræðin fá hins vegar falleinkunn á þennan mælikvarða ríkisstjórnarinnar, þar sem þau féllu að verulegu leyti í skaut heimila sem ekki eru í greiðsluvanda. Enn á ný er ætlunin að leysa greiðsluvanda skuldsettra heimila í gegnum bótakerfið eða með hækkun barnabóta. Tekjutengdar barna- og vaxtabætur draga úr einkennum skuldakreppu heimilanna tímabundið en leysa hana ekki og  gagnast fáum heimilum. Með því að skilyrða upphæð aðstoðar vegna skuldavanda við barnafjölda er veriðað mismuna þeim sem glíma við sama forsendubrestinn. Mismunun sem bætist ofan á mismunun milli þeirra sem tóku tóku annars vegar verðtryggð lán og hins vegar gengislán. Óréttlæti verður ekki leiðrétt með því að búa til annað óréttlæti,“ segir Lilja Mósesdóttir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka