Vetur og sumar frusu saman

Þessa dagana hópast farfuglar til landsins.
Þessa dagana hópast farfuglar til landsins. Mbl.is/Rax

Vetur og sumar frusu saman víðast hvar á landinu í nótt, aðfaranótt sumardagsins fyrsta, en samkvæmt þjóðtrúnni gefur það fyrirheit um gott sumar. Útlit er fyrir fremur bjart og hægt veður víða á landinu í dag en áfram verður nokkuð kalt og má því segja að sumarið hefjist með þvottekta gluggaveðri.

Sé litið á veðurkort Veðurstofu Íslands sést að hitatölur eru bláar nánast á landinu öllu, utan nokkurra reita meðfram sjónum. Að sögn veðurfræðings á vakt skreið hitastigið rétt niður fyrir frostmark í efri byggðum Reykjavíkur, og Mbl.is fékk ábendingu frá lesanda í Kópavogi þar sem veðurstöð sýndi -0,7°C á miðnætti. 

Sterk þjóðtrú

Margir gleðjast yfir þessum fregnum því sú gamla þjóðtrú lifir enn góðu lífi að það viti á gott sumar er sumar og vetur frjósa saman aðfaranótt sumardagsins fyrsta. Í Sögu daganna, bók Árna Björnssonar þjóðháttafræðings, kemur fram að hvarvetna á landinu var eftir því tekið hvort frost væri á aðfaranótt sumardagsins fyrsta svo að vetur og sumar frysu saman. Þótt menn legðu mismikinn trúnað á var slíkt með fáum undantekningum talið góðs viti. Flestir væntu þess að þá yrði gott undir bú, sem merkti að nytin úr ánum yrði kostgóð og fitumikil. Aðrir höfðu heyrt að mjólkin yrði mikil ef rigndi fyrstu sumarnótt en ekki að sama skapi kostgóð.

Sumir létu sér nægja að huga að skæni á pollum fyrsta sumarmorgun, en mjög algengt var að setja um kvöldið ílát með vatni undir bæjarvegg í skjóli frá morgunsól og vitja um eldsnemma. Það var einnig þjóðtrú, að ef gott veður er á sumardaginn fyrsta og fyrsta sunnudag í sumri yrði sumarið einnig gott. Útlit er fyrir að veðrið þennan sumardag verði þokkalegt, þótt eftirhreytur vetrarins láti enn finna fyrir sér.

Litlir umhleypingar næstu daga

Hæg norðaustanátt er víðast hvar á landinu. Von er á éljagangi sumstaðar austan til og getur verið að það verði él með suðurströndinni líka eftir hádegið. Í Reykjavík á væntanlega eftir að þykkna upp þegar líður á daginn og ský úr austrinu færast yfir, en svo birtir til aftur. 

Að sögn veðurfræðings á Veðurstofunni er líklegt að litlir umhleypingar verði í veðrinu næstu daga. Staðan eins og hún er nú gæti varað nokkuð lengi, norðaustanátt er ríkjandi og enginn lægðagangur, en því fylgir bjartviðri á suður- og vesturhluta landsins og kuldi, einkum á Norðausturlandi þar sem gætu orðið stöku él. Einhver breytileiki kann að verða á hita næstu daga, suma dagana eilítið hlýrra og þá þykknar upp, en þegar birtir til verður kaldara. 

Spóinn hefur úrslitavaldið

En samkvæmt íslenskum þjóðháttum er það meira en veðrið í dag sem spáir til um sumartíðina. Til að mynda skipta farfuglarnir miklu máli. Helstu spáfuglarnir eru samkvæmt þjóðtrúnni lóan og spóinn en næstir komu hrossagaukur og þröstur, síðan hrafn og máríátla.

Í bók Árna, Saga daganna, kemur fram að skiptar skoðanir voru um lóuna og töldu menn á sunnan- og vestanverðu landinu að lóan væri lítill spámaður og ills vita ef hún kom mjög snemma en norðan og austan var henni fagnað sem vorboða. Menn voru hins vegar sammála um að treysta mætti spóanum og öll stórhret mundu úti þegar hann heyrðist langvella.

Spói á staur.
Spói á staur. mbl.is/Ómar Óskarsson.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert