Gáfu LSH augnlækningatæki

Í dag færði Lionshreyfingin í Íslandi þjóðinni að gjöf augnlækningatæki sem sárvantaði á Landspítalann. Þetta er gert í tilefni af 60 ára afmæli Lions hér á landi. Viðstaddur afhendinguna var alþjóðaforseti Lions, Wing-Kun Tam, en hann er heiðursgestur afmælisþingsins sem hefst 20. apríl.

Ávísun á andvirði tækisins var afhent á augnlækningadeild Landspítalans við Hringbraut. Það kostar um 20 milljónir króna og er að helmingi fjármagnað með framlögum Lionsklúbba hér á landi en að helmingi með sérstöku framlagi úr alþjóðahjálparsjóði Lions í tilefni af afmælinu.

Síðar í dag verður umdæmisþing Lions á Ísland sett en það hefst með skrúðgöngu um 300 Lionsfélaga sem farin verður kl. 16:15 frá Hótel Sögu að Neskirkju. Þar mun Wing-Kun Tam ganga í fararbroddi ásamt umdæmisstjórum Lions á Íslandi og hann mun flytja heiðursávarp í kirkjunni.

Alþjóðaforsetinn mun hitta forseta Íslands, Ólaf Ragnar Grímsson, kl. 14 í dag á Bessastöðum og þeir munu báðir flytja ávörp við afmælishátíðarkvöldverð á Hótel Sögu á morgun, laugardagskvöldið 21. apríl. Þá lýkur formlega 60. afmælisári Lions á Íslandi en fyrsti klúbburinn, Lionsklúbbur Reykjavíkur, var formlega stofnaður 14. ágúst 1951.

Við sölu fyrstu Rauðu fjaðrarinnar hér á landi var gert stórátak í tækjavæðingu augndeilda íslenskra sjúkrahúsa auk þess sem heilsugæslustöðvar voru búnar tækjum, augnþrýstimælum o.fl.

Á síðustu árum hafa augnlækningar hins vegar heldur setið á hakanum hvað tækjavæðingu varðar. Þess vegna ákváðu Lionsfélagar að safna fyrir og kaupa búnað sem helst kemur að gagni augnskurðdeild Landspítala Háskólasjúkrahúss. Um er að ræða Vitrectomy: Constellation Vision System, tæki sem notað er til aðgerða innarlega í auga, svo sem í glerhlaupi og sjónhimnu, t.d. sjónhimnulos, við aðgerðir vegna sykursýkiskemmda í augnbotni og loks vegna áverka eftir slys, sem liggja djúpt í auganu, segir í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert