„Það eru að mínu viti mikil og grafalvarleg tíðindi sem ráðherrann færir þarna fram,“ segir Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í tilefni af þeim ummælum Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra á Alþingi sl. miðvikudag að „fyrirhugaðar breytingar á fjölda og heitum ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. … [séu] í raun í andstöðu við stjórnarskrána“.
„Hér er það að gerast að forsætisráðherra, sem mælti fyrir þingsályktunartillögu um breytingar á stjórnarráði Íslands, lýsir því yfir að það þingmál sem hún er að flytja og er ríkisstjórnarmál sé í andstöðu við stjórnarskrá landsins. Það eru að mínu viti mikil og grafalvarleg tíðindi sem ráðherrann færir þarna fram, óháð því hvort hún hefur á réttu eða röngu að standa um hvort þetta stangist á við stjórnarskrána. Það er ekki kjarni málsins í þessu samhengi,“ segir Einar og rifjar upp eiðstaf þingmanna.
„Kjarni málsins er að ráðherrann er að flytja mál í nafni ríkisstjórnarinnar sem er að hennar mati brot á stjórnarskrá. Þetta er ekki síst alvarlegt af þeim sökum að um leið og alþingismenn taka sæti á Alþingi rita þeir eiðstaf að því að virða ákvæði stjórnarskrárinnar,“ segir Einar sem telur að forseti Alþingis hljóti að bregðast við ummælunum. Málið hafi ekki verið þingtækt.
Í andstöðu við stjórnarskrána
Orðrétt sagði forsætisráðherra í ræðu sinni:
Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram en tel ástæðu til að bregðast við nokkrum atriðum sem fram komu í þessari umræðu sem sum hver byggja á misskilningi og órökstuddum fullyrðingum sem ástæða er til að fara yfir.
„Í fyrsta lagi felur þessi þingsályktunartillaga það eitt í sér að Alþingi styðji fyrirhugaðar breytingar á fjölda og heitum ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Það er í raun í andstöðu við stjórnarskrána sem segir að forseti ákveði tölu ráðherra og skipti störfum með þeim. Staðreyndin er sú að það fyrirkomulag er í flestum Evrópulöndum utan Finnlands að þingið hefur ekki afskipti af verklagi innan Stjórnarráðsins eða tilfærslu á breytingum á verkefnum eða ráðuneytum eins og fram kom í máli hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur þar sem hún var þeirrar skoðunar að framkvæmdarvaldið ætti að hafa það vald án afskipta þingsins að ráða hverju sinni hvernig verkefnum eða ráðuneytum væri komið fyrir í Stjórnarráðinu.“
Nálgast má bráðabirgðaútgáfu af ræðu Jóhönnu hér.