Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra segir Ísland gott dæmi um að niðurstöður Mannréttindadómstóls Evrópu gætu haft jákvæð áhrif á vernd mannréttinda í aðildarríkjunum.
Framtíð og áskoranir í starfsemi Mannréttindadómstóls Evrópu eru til umræðu á fundi dómsmálaráðherra ríkja Evrópuráðsins sem stendur nú yfir í Brighton á Englandi. Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra situr fundinn sem Kenneth Clarke, dómsmálaráðherra Breta, stýrir en Bretar sinna nú formennsku í ráðherraráði Evrópuráðsins.
Mannréttindadómstóll Evrópu glímir við verulegan málafjölda og hefur ekki nægileg úrræði til þess að takast á við þennan mikla fjölda mála. Alls liggja nú fyrir dómstólnum 160 þúsund kærur frá einstaklingum og félagasamtökum í aðildarríkjunum.
Tilgangur fundarins er að samþykkja yfirlýsingu þar sem fjallað er um hlutverk dómstólsins, aðildarríkja og ráðherraráðs Evrópuráðsins við að tryggja, vernda og virða mannréttindi borgaranna og gera dómstólnum kleift að sinna hlutverki sínu með virkari hætti. Fjölmörg sjónarmið komu fram um til hvaða úrræða þyrfti að grípa svo ná mætti þessu takmarki, segir á vef innanríkisráðuneytisins.
Í ræðu sinni í gær sagði Ögmundur mikilvægt að tryggja dómstólnum umhverfi sem gerði honum kleift að sinna sínu gríðarmikilvæga hlutverki og að aðildarríkin yrðu að taka niðurstöður dómstólsins alvarlega. Hann sagði jafnframt að öll aðildarríkin, hvort heldur stór eða smá, yrðu að taka alvarlega þær alþjóðlegu skuldbindingar sem þau undirgangast og tryggja að þær kæmu til framkvæmda í aðildarríkjunum sjálfum.
„Efni yfirlýsingarinnar var á sömu nótum þar sem mikil áhersla er lögð á skyldur ríkjanna til þess að tryggja mannréttindi í framkvæmd og að koma niðurstöðum dómstólsins til framkvæmda. Styrkja á innra starf dómstólsins, meðal annars með breyttum verklagsreglum, og samþykkt var að fela ráðherraráðinu að vinna breytingar á ákvæðum sáttmálans til þess að gera meðferð mála skilvirkari. Ennfremur var samþykkt að skrásetja túlkunarreglur dómstólsins um nálægðarregluna og meginregluna um svigrúm ríkja til mats í formála sáttmálans.
Fundurinn í Brighton er þriðji ráðherrafundurinn um framtíð Mannréttindadómstólsins á tveimur árum, en Bretar hafa gert endurskoðun umhverfis dómstólsins að forgangsverkefni í formennskutíð sinni í Evrópuráðinu,“ segir á vef innanríkisráðuneytisins.