„Kemur vonandi vitinu fyrir þá“

Struan Stevenson, þingmaður á Evrópuþinginu.
Struan Stevenson, þingmaður á Evrópuþinginu.

Háttsettir fulltrúar í sjávarútvegsnefnd Evrópuþingsins vilja að viðræður um inngöngu Íslands í Evrópusambandið verði stöðvaðar og þær ekki hafnar að nýju fyrr en Íslendingar hafa fallist á samkomulag um veiðar á makríl í Norður-Atlantshafi. Þetta kemur fram á fréttavefnum Thefishsite.eu í dag.

Þingmennirnir gengu á fund Štefans Füle, sem fer með stækkunarmál í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, fyrr í vikunni og gerðu honum grein fyrir þessum sjónarmiðum sínum en í þeirra hópi eru þingmenn út öllum helstu þingflokkum á Evrópuþinginu.

Haft er eftir Struan Stevenson, þingmanni breska Íhaldsflokksins á Evrópuþinginu, að Füle hafi verið bent á að þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til þess að semja við Íslendinga hefði þær ekki skilað neinum árangri og að Íslendingar og Færeyingar stefndu makrílstofninum í hættu.

„Við höfum beðið Füle stækkunarstjóra að sjá til þess að ekki verði frekara framhald á viðræðum við Ísland um inngöngu í Evrópusambandið fyrr en niðurstaða hefur verið fundin á þessu máli,“ segir Stevenson.

Hann sagði að Füle hafi sagt að það hversu breiður þingmannahópurinn væri sýndi alvarleika málsins og að hann hafi fullvissað þingmennina um að verið væri að vinna í málinu af framkvæmdastjórninni.

Þá sagði Stevenson að sjávarútvegsnefndin væri að fara yfir tillögur að refsiaðgerðum gegn Íslandi of Færeyjum sem fælu í sér að allur útflutningur frá þeim á fiski til ríkja Everópusambandsins yrði bannaður og að skip ríkjanna tveggja yrðu bönnuð í höfnum sambandsins.

„Ég vona að þessar hörðu aðgerðir munu koma vitinu fyrir þá,“ segir Stevenson.

Frétt Thefishsite.eu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka