Mótmæla við Hörpu síðdegis

Mótmælt verður við Hörpu í kvöld.
Mótmælt verður við Hörpu í kvöld. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Vinir Tíbets munu koma saman við Hörpu í dag klukkan 17:30 til að mótmæla vaxandi hörku gagnvart Tíbetum af hendi kínverskra yfirvalda. Á sama tíma verður haldin veisla til heiðurs forsætisráðherra Kína á veitingastað í Hörpu.

Á meðan sextíu ára herseta kínverskra yfirvalda hefur staðið yfir í Tíbet hefur ríkisstjórn Alþýðulýðveldisins Kína innleitt miskunnarlausa stefnu aðlögunar og kúgunar á tíbetsku þjóðinni, segir í tilkynningu frá Vinum Tíbets.

 „Mannréttindi eru markvisst fótum troðin gagnvart Tíbetum: þeir eru sviptir öllum rétti til pólitísks frelsis, að tala sitt eigið tungumál og iðka sína þjóðmenningu, það er ekkert raunverulegt trúfrelsi í Tíbet. Að eiga ljósmynd af Dalai Lama er til að mynda refsivert. Tíbetum er kerfisbundið haldið frá atvinnustarfsemi, atvinnutækifærum og aðgengi að menntun vegna þjóðernis. Tíbetska þjóðin vex ekki eins og aðrar þjóðir heldur hefur fjöldi Tíbeta staðið í stað um langa hríð. Tíbetska þjóðin er orðin að minnihluta í sínu eigin landi. Eina leiðin til að viðhalda þjóðmenningu þessarar merku þjóðar er í útlegð. En blæbrigði tungumálsins, sögur og söngvar fjara út dag frá degi.

Sjálfsíkveikjurnar sem eru því miður að aukast þrátt fyrir skelfilegar afleiðingar sýna gríðarlega örvæntingu meðal tíbetskra munka og nunna vegna kerfisbundinnar afneitunar á rétti þeirra til að iðka trú sína án afskipta. Þá hefur jafnframt komið fram að þau sjá þetta sem einu leiðina til að vekja athygli á síversnandi ástandinu og algers fálætis heimsbyggðarinnar gagnvart hljóðlátri en markvissri útrýmingu þjóðar og þjóðareinkenna. Í 60 ár hefur heimurinn horft fram hjá mannréttindabrotum í Tíbet gagnvart tíbetsku þjóðinni. Nú höfum við kjörið tækifæri til að sýna fram á að barátta þessarar merku þjóðar hefur náð eyrum okkar og við sýnum í orði sem og í verki að ákall til aðstoðar falli ekki fyrir daufum eyrum.

Ekki verður annað ráðið en að kínversk yfirvöld standi fyrir skipulegri útrýmingu á tíbetsku þjóðinni. Í því máli ber íslenskum stjórnvöldum að taka afstöðu, sér í lagi vegna þess að hér koma æðstu embættismenn kínverskra alþýðuveldisins með reglulegu millibili,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert