Mannanafnanefnd hefur samþykkt kvenmannsnafnið Atlanta og karlmannsnöfnin Evan og Friedrich en hefur hafnað kvenmannsnöfnunum Ekene, Borghild og Alpine.
Í úrskurði nefndarinnar varðandi nafnið Alpine segir m.a. að samkvæmt gögnum Þjóðskrár beri engin kona nafnið Alpine sem uppfyllir skilyrði vinnulagsreglna og nafnið kemur ekki fyrir í manntölum frá 1703-1910.
Ef nafnið Alpine er borið fram að enskum hætti „alpæn“ reynir í öðru lagi á annað skilyrði reglnanna, þ.e. að nafnið er ekki ritað í samræmi við ritreglur íslensks máls enda er „æ" ekki táknað með i í íslensku ritmáli. Frávik frá ritreglum íslensks máls eru heimiluð ef hefð er fyrir slíkum rithætti. Svo er ekki í þessu tilviki.
Um nafnið Friedrich, sem var samþykkt, segir nefndin m.a. í úrskurði sínum að samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands beri einn drengur nafnið Friedrich í þjóðskrá sem uppfyllir skilyrði vinnulagsreglnanna og er hann fæddur árið 2004. Nafnið kemur einnig fyrir í manntölum árin 1890 og 1901. Það telst því vera hefð fyrir nafninu Friedrich.
Um nafnið Borghild, sem nefndin hafnaði, segir m.a. í úrskurði að í lögum um mannanöfn séu m.a. skilyrði sem einkum sé ætlað að koma í veg fyrir að rótgrónum nöfnum sé breytt til horfs sem stríðir gegn hefð þeirra. Nöfn eins og Guðmund og Þorstein (í nefnifalli) eru því óheimil. Á sama hátt stríðir nafnið Borghild gegn hefð nafnsins Borghildur og er því ekki mögulegt að fallast á það.
Þá hafnaði nefndin beiðni um eiginnafnið Julia sem og kvenmannsnafninu Ekene. Í úrskurði nefndarinnar um Ekene segir m.a. að samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands beri engin kona nafnið Ekene í þjóðskrá sem uppfyllir skilyrði vinnulagsreglnanna. Nafnið kemur ekki fyrir í manntölum 1703-1910. Það telst því ekki vera hefð fyrir nafninu Ekene.