Ræða fjárfestingar í Þjóðmenningarhúsi

Fulltrúar íslenskra stjórnvalda á fundi með kínverska fórsætisráðherranum í Þjóðmenningarhúsinu.
Fulltrúar íslenskra stjórnvalda á fundi með kínverska fórsætisráðherranum í Þjóðmenningarhúsinu. mbl.is/Kristinn

Efnahags- og viðskiptamál, m.a. fjárfestingar, verða til umræðu á fundi forsætisráðherra Kína og Íslands sem nú er hafinn í Þjóðmenningarhúsinu. 40 ár eru liðin síðan löndin tóku upp stjórnmálasamband.

Fundinn sitja fyrir Íslands hönd Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra, Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, og Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra.

Jóhanna sagði fyrir fundinn að hún fagnaði þeim tímamótum að fjörutíu ár væru liðin frá því Ísland og Kína tóku upp stjórnmálasamband. Þá lýsti hún ánægju yfir auknu samstarfi landanna og tækifærum sem því fylgdi. Sagði hún það hafa komið sér á óvart við undirbúning fundarins hversu mörg íslensk fyrirtæki rækju hluta af starfsemi sinni í Kína. Næsta skref væri að marka nýja braut og ný tækifæri í samstarfi landanna.

Wen Jiabao, forsætisráðherra Kína, þakkaði íslensku ríkisstjórninni og íslensku þjóðinni fyrir hlýlegar móttökur. Hann sagðist hafa heyrt að sumardagurinn fyrsti hefði verið í gær og samgladdist Íslendingum með það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert