Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði á Alþingi í dag að í öllum eðlilegum lýðræðisríkjum væri forsætisráðherra búinn að segja af sér embætti eftir að hafa viðurkennt að að mál sem hann hefði lagt fram á þingi stæðist ekki stjórnarskrá.
Þar vísaði Einar til þeirra ummæla Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, í vikunni að þingsályktunartillaga hennar um breytingar á stjórnarráði Íslands kynni að vera í ósamræmi við stjórnarskrá lýðveldisins en þar er kveðið á um að það sé forseti sem ákveði tölu ráðuneyti og verkaskiptingu þeirra en ekki Alþingi eða ráðherrar.
Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokksins, tók einnig til máls og minnti á að alþingismenn hefðu svarið eið að stjórnarskránni. Hann tók undir orð Einars um að forsætisráðherra væri varla stætt vegna málsins.
Árni Þór Sigurðsson, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, sagði það hafa verið stjórnskipulega hefð á Íslandi í áratugi að gerðar væru breytingar á stjórnarráðinu með þeim hætti sem nú stæði til að gera.
Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, spurði hvaða tilgangur væri með því að setja nýja stjórnarskrá ef það ætti ekkert að fara eftir stjórnarskránni.