„Þetta er mjög ánægjulegt fyrir okkur á Grundartanga því þetta allavega lýsir vilja til að halda viðræðum áfram,“ segir Einar Þorsteinsson, forstjóri járnblendiverksmiðju Elkem á Grundartanga. Sameiginleg viljayfirlýsing var í dag undirrituð milli íslenska ríkisins og kínverska fyrirtækisins BlueStar um uppbyggingu á Grundartanga.
Um er að ræða tvenns konar verksmiðjur, annars vegar um framleiðslu kísilmálms, allt að 65 þúsund tonn, og hinsvegar verksmiðja sem framleiðir kísilmálm og umbreytir honum í svokallaðan sólarkísil, sem notaður er í sólarsellur. Framleiðslan þar yrði um 12 þúsund tonn.
Mikil viðbót við þá starfsemi sem fyrir er
Viðræður við kínverska fyrirtækið BlueStar um uppbygginguna hafa reyndar staðið yfir um tíma en með undirritun starfandi iðnaðarráðherra og forstjóra BlueStar í dag liggur fyrir yfirlýsing um vilja til að halda viðræðum áfram. „Þetta er gríðarleg viðbót, ef af þessu verður,“ segir Einar, en kísilmálmverksmiðjan verður sambærileg að stærð við kísilverið sem rætt er um í Helguvík. Sólarkísilverksmiðjan myndi svo aftur skapa um 350 störf.
Að sögn Einars er enginn tímarammi settur í yfirlýsingunni né önnur atriði niðurnegld. Málið sé enn á miklu frumstigi. „Þetta eru klárlega ánægjuleg tíðindi sem slík, en það ber þó að gera ekki meira úr því en það að þetta er viljayfirlýsing um að ræða málin áfram.“