Ísland var fyrsta landið sem varð fyrir verulegu áfalli vegna of kappsamra bankamanna (karlkyns). Nú er landið á réttri leið. Hvers vegna? Vegna þess að konurnar tóku við. Þannig hefst grein í breska dagblaðinu Independent í dag undir fyrirsögninni „A Nordic revolution: The heroines of Reykjavik“.
Í greininni lýsir blaðamaðurinn John Carlin upplifun sinni af Íslandi en hann kom hingað til lands fyrir þremur árum og svo aftur fyrir stuttu. Þá ræddi hann meðal annars við Katrínu Jakobsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, og fleiri konur um þá þróun sem hefur átt sér stað á Íslandi á undanförnum árum.
Yfir sig hrifinn af Hörpu
Hann lýsir meðal annars Hörpu sem ekki var risin þegar hann sótti Ísland síðast heim. Carlin er greinilega hrifinn af byggingunni sem hann segir ekkert síðri en Guggenheim-safnið í Bilbao á Spáni. Segir hann Katrínu eiga heiðurinn að því að Harpa varð að veruleika, en svo hrifinn er hann af Hörpu að hann getur varla slitið sig frá fegurð hússins.
Carlin lýsir hruninu á Íslandi og því að karlmönnum hafi verið kennt um. Karlar hafi verið við völd í stærsta flokknum og yfirmenn bankanna karlar. Vísar hann í Financial Times þar að lútandi en í FT kom fram á þessum tíma að konur hefðu gripið inn eftir hrunið til þess að hreinsa upp ruslið. En á Íslandi sé staðan sú að eftir að konurnar tóku til þá voru þær áfram við völd. Jóhanna Sigurðardóttir sé forsætisráðherra og margar konur séu í ríkisstjórninni. Forstjóri Rio Tinto Alcan sé kona og fjölmargar konur séu frumkvöðlar í atvinnulífinu.
Minnti á yngri og mýkri systur Lisbeth Salander
Að því er fram kemur í greininni nýtur Katrín Jakobsdóttir vinsæla meðal almennings og fólk sem hann hafi rætt við sé hreykið af henni. Hann þakkar fyrir að hafa fengið lýsingar á henni því annars hefði hann aldrei trúað því að þessi stúlka sem hann hitti væri ráðherra. Í Doc Martens-skóm, brúnum gallabuxum, grönn og ómáluð. Hún hafi eiginlega minnt hann á yngir og mýkri systur Lisbeth Salander, sögupersónunnar í bókum Stiegs Larsson's.
Í viðtalinu lýsir Katrín því að eitt það fyrsta sem hún hafi staðið frammi fyrir í ráðuneytinu hafi verið að ákveða hvort halda ætti áfram við byggingu tónlistarhúss eða ekki. Tekin hafi verið ákvörðun um að halda áfram og það hafi einkum og sér í lagi verið gert vegna þess fjölda starfa sem voru í húfi.
Í greininni er einnig farið yfir efnahagsmálin á Íslandi og umsókn Ísland um aðild að Evrópusambandinu og fleira en viðtalið er hægt að lesa í heild hér