Íbúðalánasjóður (ÍLS) undirbýr nú upptöku óverðtryggðra lána og að sögn Sigurðar Erlingssonar, framkvæmdastjóra sjóðsins, er stefnt að því að geta boðið upp á slík lán í lok sumars. ÍLS hefur aðallega boðið verðtryggð lán til þessa en heildarstaðan á þeim var 626 milljarðar króna til einstaklinga í árslok 2011, borið saman við rúma 606 milljarða króna árið áður.
Þær upplýsingar sem fram komu í Morgunblaðinu í gær, upp úr svari efnahags- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn á Alþingi, benda til að fasteignaskuldir landsmanna hafi aukist á síðasta ári, sér í lagi óverðtryggð lán. Á sama tíma hafa verðtryggð lán einnig aukist, sem og verðbætur. Í svari ráðherra voru eingöngu tölur frá bönkum og lífeyrissjóðum en Íbúðalánasjóð og LÍN vantaði þar inn í.
„Heilt á litið hafa skuldirnar lækkað um 200 milljarða króna síðan þær náðu hámarki. Að miklu leyti má skýra það með þeim endurútreikningi sem hefur átt sér stað. Önnur endurskipulagning, eins og 110% leiðin, hefur einnig haft einhver áhrif,“ segir Þorvarður Tjörvi Ólafsson, hagfræðingur á hagfræði- og peningasviði Seðlabankans, um þær upplýsingar sem fram koma í svari efnahags- og viðskiptaráðherra. Hann segir skýringuna á þessari þróun einnig geta verið þá að margir hafi verið að fara úr gengistryggðum lánum yfir í óverðtryggð.
Þorvarður Tjörvi tók nýverið saman skýrslu, ásamt Karen Á. Vignisdóttur hagfræðingi, um skuldastöðu heimilanna fyrir og eftir hrun. Hún sýndi m.a. að í lok árs 2010 voru um 37% skuldsettra húseigenda í skuldavanda og tíundi hver var bæði í greiðslu- og skuldavanda. Í skýrslunni var tímabilið 2007-2010 tekið fyrir og á þeim tíma hækkuðu fasteignaskuldir landsmanna um 75%.
Þorvarður Tjörvi segir skuldavandann vera sambland af tvennu. Í fyrsta lagi hafi orðið gríðarleg skuldsetning á árinu 2007 og fyrstu mánuðum 2008, sérstaklega í gengisbundnum lánum, sem hafi reynst heimilunum ansi dýrkeypt. Í öðru lagi megi skýra þróunina með þeim áföllum sem dundu yfir í kjölfarið, þ.e. bankahruninu, aukinni verðbólgu og veikingu krónunnar.