Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Framsóknarflokksins, spyr hvort Íslendingar væru tilbúnir til að greiða hundruð milljóna til Seðlabanka Evrópu í björgunarpakka til þeirra landa Evrópusambandsins sem eiga í mestum vanda. Sigmundur Davíð, sem er gestur Sigurjóns M. Egilssonar í Sprengisandi í dag, segir að evran sé engin lausn.
„Það er ekki sama, íslensk evra og þýsk evra," sagði Sigmundur Davíð í Sprengisandi nú í morgun. Sigmundur Davíð sagði að jafnvel þótt Íslendingar tækju upp evruna stæðu þeir engu að síður frammi fyrir því að útlendingar myndu vilja taka peningana sína heim, því þeir vilji ekki geyma þá í íslenskum bönkum. Það myndi þýða evruflæði úr landinu sem myndi aftur þýða að skuld Seðlabanka Íslands myndi hækka og hækka í mynt sem hann ekki gæti prentað, líkt og er að gerast í Grikklandi.
Eina leiðin að skapa tækifæri til fjárfestinga
„Ef við ætlum að taka upp evruna og ganga í ESB þá þurfum við líka að greiða í evrópska seðlabankann fyrir björgunarpakkana til þeirra landa sem eru að falla," bætti Sigmundur Davíð við og spurði hvort Íslendingar væru tilbúnir til að leggja nokkur hundruð milljónir í það, eftir að hafa naumlega reist við eigið bankakerfi.
„Eina leiðin til að leysa þessi gjaldmiðilsmál [...] er að hér verði tækifæri til að fjárfesta," sagði Sigmundur Davíð og gagnrýndi að ekki væri verið að gera neitt til þess að skapa möguleika til að losa um gjaldeyrishöftin og skapa tækifæri til fjárfestinga.