Halda 200 manna veislu í Færeyjum

Frá Færeyjum.
Frá Færeyjum. mbl.is/Ómar Óskarsson

Hópur Vestmannaeyinga er nú staddur í Götu í Færeyjum og hefur haldið tvenna tónleika á Eyjunum. Mikil stemning er í hópnum, sem telur rúmlega níutíu manns.

Árni Johnsen alþingismaður er með hópnum og grípur í gítarinn þegar þannig ber undir. Hann segir mikla stemningu í hópnum og að ferðin hafi tekist mjög vel. Eingöngu eru sungin Eyjalög, mest lög Oddgeirs Kristjánssonar.

„Þetta er grúppa sem heitir Blítt og létt og er 15 Eyjamanna lið, söngvarar og hljóðfæraleikarar og svo eru með um 75 manns og ég er svona með að spila, en þeir eru með sérstakt prógramm og hefur gengið vel. Mikil stemning,“ sagði Árni Johnsen.

„Gata er svona vinabær Vestmannaeyja og það eru tengsl svolítið á milli Götu og Eyjamanna í gegnum Grím kokk og Færeying sem heitir Marteinn Jul,“ sagði Árni.

„Þetta var bara hugmynd sem var framkvæmd. Það voru tónleikar í Þórshöfn og móttaka þar. Það er frítt inn á tónleikana og svo var troðfullt hús í Götu.“

Eldar íslenskt ofan í 200 manns

„Það er mikið að gerast hérna hjá okkur í bænum,“ sagði Grímur Gíslason eða Grímur kokkur eins og hann er þekktur í Vestmannaeyjum og raunar um allt land í gegnum framleiðsluvörur sínar.

„Já, þetta eru rétt tæplega 200 manns. Við erum að bjóða þeim í mat hérna í Götu. Það eru búnar að vera frábærar móttökur hérna hjá okkur og við erum búin að vera í gistingu í heimahúsum. Þetta er 92 manna hópur. Við komum frá Vestmannaeyjum og erum búin að halda tvenna tónleika, héldum eina tónleika inni í Þórshöfn og svo eina hér inni í Götu og það er búið að vera gríðarleg stemning hér í Færeyjum hjá hópnum og öllum gestgjöfunum líka,“ sagði Grímur.

„Já, við erum að bjóða gestgjöfum núna og svo er hópurinn hjá okkur,“ sagði Grímur aðspurður hverjir væru að koma í mat. „Á matseðlinum er humarsúpa og svo erum við með íslenskt lambalæri og svo svo erum við með grillaðan langreið,“ sagði Grímur um matseðilinn, en hann stóð við grillið á meðan samtalið fór fram að undirbúa veisluna.

„Við erum að gera þetta klárt og svo verður sungið og spilað hérna fram eftir kvöldi. Við fórum upp á elliheimili í dag og héldum tónleika fyrir gamla fólkið. Þar var virkilega gaman að syngja Eyjasöngvana. Við erum eingöngu með Eyjalögin á dagskrá og vörpum textunum á vegg með skjávarpa þannig að það eru allir að syngja með, bæði Íslendingarnir og Færeyingarnir,“ sagði Grímur.

Átti fyrst að vera hljómsveit, svo hópur á fokker vél en endaði í þotu

Aðspurður hvernig þessi hugmynd hafi komið til sagði Grímur: „Það kviknaði hugmynd og átti bara að vera hljómsveit úr Eyjum, Blítt og létt hópurinn, sem er að syngja Eyjasöngvana. En svo var gríðarlegur áhugi fyrir þessu heima í Eyjum og við ákváðum að leigja Fokker en svo var hann orðinn allt of lítill svo við leigðum þotu og það voru 92 sem komu með,“ sagði Grímur en hópurinn kemur til Íslands á morgun.

„Fólk er búið að vera í skýjunum og hefur aldrei upplifað aðra eins gestrisni og hérna. Ég hef reyndar upplifað þetta áður og kom mér ekki á óvart, en fólkið er alveg í skýjunum,“ sagði Grímur að lokum.

Vestmannaeyjar.
Vestmannaeyjar. mbl.is/Brynjar Gauti
Árni Johnsen, alþingismaður.
Árni Johnsen, alþingismaður.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert