Kreppan og konur á vinnumarkaði

Jill Rubery, prófessor við Manchester Business School er hér á …
Jill Rubery, prófessor við Manchester Business School er hér á landi á ráðstefnu um konur, kynjajafnrétti og efnahagskreppuna í Háskóla Íslands. Hún er einn helsti sérfræðingur heimsins á þessu sviði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Alþjóðleg ráðstefna, sem ber heitið „Konur, kynjajafnrétti og efnahagskreppan“ fer fram í Háskóla Íslands um helgina. Á ráðstefnunni koma fram margir af helstu sérfræðingum heims á sviði kynja- og vinnumarkaðsmála og er fjallað um áhrif kreppunnar á kynin, bæði í einstökum löndum sem og innan Evrópusambandsins, frá sjónarhóli hagfræði og félagsfræði.

Ein af þeim sem halda fyrirlestra á ráðstefnunni er Jill Rubery, prófessor við Manchester Business School, en Rubery er meðal annars þekkt fyrir að ryðja brautina í rannsóknum um áhrif af efnahagslægðum á kynin og gaf út bók, byggða á rannsóknum sínum, árið 1989 sem heitir Women and Recession. Á ráðstefnunni um helgina fjallar hún um kenningarlega nálgun sína á efninu og um kreppuna á Bretlandi.

Blaðamaður mbl.is hitti Rubery í gær eftir fyrri fyrirlestur hennar og tók hana tali. Þar kom fram að eftir fyrstu rannsóknir hennar á efninu á 9. áratugnum hafi málið sofnað í umræðunni, en vaknað aftur þegar efnahagskreppan skall á haustið 2008.

En hver er megin munurinn á áhrifum efnahagssamdráttarins á 9. áratugnum á kvennastörf og á áhrifum þess efnahagsvanda sem vestrænu ríkin eru að ganga í gegnum núna á konur á vinnumarkaði?

 „Ég held að það sé margþættur munur. Í fyrsta lagi komust við að því að það var ekki jafn auðvelt að skipta konum út af vinnumarkaði og við höfðum haldið. En eigi að síður voru þær ekki jafn bundnar á vinnumarkaði og háðar honum og við sjáum í dag. Þá eru nú mjög litlar vísbendingar um að konur dragi sig sjálfar af vinnumarkaði vegna ástandsins. Nú spilar inn í sú staðreynd að með þátttöku sinni á vinnumarkaði hafa konur öðlast bótarétt og því snertir atvinnumissir þær ekki jafnt nú og þegar þær voru jafnvel í hlutastörfum í fyrri efnahagsþrengingum og áttu engan bótarétt þegar þær misstu vinnuna. Þá er það einnig svo í dag að fríðindin sem fylgja því að vera í starfi eru mun mikilvægari nú en þau voru þá. Það hefur hjálpað konum að halda sig á vinnumarkaði og er kannski stóra breytingin.

Á níunda áratugnum voru konur vinnuafl sem kom og fór af vinnumarkaði þegar á þurfti að halda og þær höfðu öðru hlutverki að gegna. Við komust einnig að því að þær voru sveigjanlegt vinnuafl. Á þeim tíma voru þær verndaðri í opinbera geiranum en í einkageiranum og oft í skrifstofustörfum og í gjaldkerastörfum.

Ef við færum okkur fram til dagsins í dag þá hafa þessi störf þróast umtalsvert og aukin tækni kemur þar inn í. Það er ekki jafn mikil þörf á vélriturum nú og þá til að mynda. Þá virðist það hafa snúist við að einkageirinn verndar konur betur nú en hann gerði áður og fyrstu áhrif efnahagsþrenginganna komu ekki jafn mikið við konur í þeim geira og í opinbera geiranum.

Nú er mikið þrýst á að draga úr ríkisútgjöldum og það kemur niður á störfum sem konur vinna í opinbera geiranum og hann er því ekki lengur að verja þær, líkt og hann gerði, heldur þvert á móti að koma illa niður á þeim þar sem niðurskurðurinn bitnar á störfum sem konur gjarnan vinna. Þetta hefur þó ekki allt komið fram í atvinnuleysistölum. Þetta kemur misjafnt niður milli landa.“

Í útdrætti af fyrirlestri þínum kom fram að margar konur teldu það skyldu sína að láta undan þegar störfum væri að fækka og draga sig af vinnumarkaði á meðan. Telur þú að það sé um stóran hóp kvenna að ræða sem hefur þessi viðhorf og heldur þú að samfélagið viðurkenni þessi gildi á 21. öld?

„Ég held að það sé mismunur á milli þess sem konur gera og þess sem stjórnvöld hvetja til. Ég held að stjórnvöld laðist að þeirri hugmynd að konur séu viljugar til þess að draga sig af vinnumarkaði. Stjórnvöld telja það ekki sitt hlutverk að stuðla að því að konur geti tekið þátt á vinnumarkaði með þáttum eins og barnagæslu og öðru sem gerir þeim það kleift. Þetta sé einkamál. Ef konur vilji vinna þá megi þær það, en að fólk eigi sjálft að kosta þætti eins og barnagæslu fyrir hjónafólk. Það gildi öðru máli um einstæðar mæður sem njóta í dag  ríkisstyrkja og í stað þess að vera heima og sjá um börnin verði þessar konur að vinna.

Það er því ein regla hjá hjónafólki sem þarf ekki á ríkinu að halda og það hefur dregið úr stuðningi við þann hóp og önnur regla hjá þeim sem njóta stuðnings og ríkið þrýstir mjög á þær konur að vinna og heldur uppi barnagæslu fyrir þær því annars væri alveg vonlaust fyrir þær að vera á vinnumarkaði.“

Ég las einnig í útdrætti þínum að áhrif samdráttarins komi niður á ákveðnum hópum umfram aðra. Hvaða hópar eru þetta?

„Það kemur mjög sterkt fram mismunum gagnvart kynþætti. Ef við skoðum kynin þá eru ákveðnir hópar meðal karla sem eru undir. Samkvæmt skýrslum kemur fram að helmingur ungra blökkumanna á Bretlandi sé atvinnulaus. Þetta er eitthvað sem er að aukast og þarf að skoða betur og rannsaka. Niðurskurður ríkisins kemur einnig mjög mikið niður á konum af minnihluta þjóðarbrotum, sem dæmi konum af asískum uppruna og blökkukonum sem gjarnan vinna í heilbrigðisgeiranum. En það er erfitt að sjá inn í framtíðina í þessum efnum.“

Nú gilda meira og minna sömu vinnumarkaðslög í Evrópu. Þurfum við að skoða lagaumhverfið og breyta lögum til að verja konur á vinnumarkaði?

„Ég ætla ekki að gagnrýna lögin, en lögin koma ekki í veg fyrir að annað kynið verði undir á vinnumarkaði. Það eru stórir þættir sem verða til þess að konur leiðast út í eina atvinnugrein og karlar út í einhverja aðra. Þannig koma lögin ekki til hjálpar gagnvart þessum þáttum. Sem dæmi í opinbera geiranum þá læra konur gjarnan hjúkrunarfræði eða öðlast kennaramenntun og erfitt er fyrir þær að fara yfir í aðrar greinar með þá menntun. Það er því ekki auðvelt fyrir marga hópa að hefja starfsferil í öðrum greinum ef þrengingar verða.“

En hverjar eru megin ástæður þess að efnahagsþrengingarnar nú hafa ekki jafn mikil áhrif á konur á vinnumarkaði og áður og telur þú að betri menntun kvenna hjálpi til í þeim efnum?

„Af sjálfsögðu er það svo að með betri menntun eru konur viljugri að halda í störf sín. En í það heila þá er mynstrið í atvinnumissi ekki þannig nú að það komi meira niður á konum en körlum. Rannsóknir okkar sýna þó að í einum geira er meira um það að konur missi störf en karlar og það er í fjármálageiranum. Það var hinsvegar þannig að margar konur voru í hlutastörfum, af eigin vilja eða þá að þær hafa verið beðnar um að minnka við sig vinnu. Það er hinsvegar erfitt að sjá nú þegar hvort full störf hafi verið gerð að hlutastörfum og verður að skoðast.“

Lenda konur meira í því að þurfa að minnka við sig starfshlutfall en karlmenn?

„Það hefur aukist hjá báðum kynjum að fólk vinni hlutastarf í sjálfboðavinnu (vinni fulla vinnu en fái einungis greitt fyrir hluta hennar – innskot blaðamanns). En hópur kvenna sem er í þessari stöðu er að minnka þannig að aukningin á konum í fullu starfi er meiri en aukningin í hlutastörfum kvenna á vinnumarkaði.“

Er ríkisstjórn ykkar að gera nóg til að koma í veg fyrir að konur missi störf sín í meira mæli en karlmenn?

„Okkar ríkisstjórn hefur það ekki í forgrunni að halda konum á vinnumarkaði. Það er algengt gamaldags viðhorf að konur eigi að vinna sjálfboðavinnu, á bókasöfnum eða að vinna launalaust við barnagæslu. Þetta eru mikil umskipti frá fyrri ríkisstjórn sem hafði það á stefnu sinni að halda konum á vinnumarkaði og leit ekki svo á að sjálfboðaliðastörf gætu leyst af í störfum kvenna á almennum vinnumarkaði.“

Vinnumálastofnun á Spáni. Atvinnuleysis gætir víða vegna efnahagskreppunnar.
Vinnumálastofnun á Spáni. Atvinnuleysis gætir víða vegna efnahagskreppunnar. reuters
Atvinnuleysi mótmælt á Bretlandi.
Atvinnuleysi mótmælt á Bretlandi. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert