Offita er talin vera meðal fjögurra stærstu heilbrigðisvandamála í heiminum. Erla Gerður Sveinsdóttir læknir segir að offita sé ein af birtingarmyndum óheppilegra lífshátta og til að ná tökum á henni þurfi að taka lífsstílinn í heild til skoðunar, ekki bara hreyfa sig meira og borða minna.
Erla er ein af fyrirlesurum á námsstefnu Lionshreyfingarinnar um offitu barna á þriðjudaginn í Norræna húsinu. „Álag, áföll, streita, svefntruflanir, félagslegar aðstæður, andleg og líkamleg vanlíðan og sjúkdómar eru allt þættir sem geta átt hlut að máli og taka þarf tillit til þegar hentug leið er valin til að bregðast við offituvandanum. Best er þó að finna leiðir til að fyrirbyggja offitu og samfélagið allt þarf að taka höndum saman til að ná tökum á því verkefni," er haft eftir Erlu í tilkynningu frá Lionsfélaginu þar sem greint er frá námsstefnunni.
Auk Erlu flytja erindi á námsstefnunni Tryggvi Helgason barnalæknir sem ræðir um offitu barna og meðferðarleiðir. Sigrún Daníelsdóttir sálfræðingur flytur erindi um heilsueflingu óháð holdafari. Héðinn Jónsson sjúkraþjálfari flytur erindi um hreyfiseðilinn og Guðrún Yngvadóttir fræðir gesti um Lions og heilbrigðismál.
Námsstefnan er ókeypis og öllum opin og hefst á þriðjudaginn kl. 16.30 í Norræna húsinu.