Samþykktu kínverskan forgang

Kínverski forsætisráðherrann Wen Jiabao og Jóhanna Sigurðardóttir við komu kínverska …
Kínverski forsætisráðherrann Wen Jiabao og Jóhanna Sigurðardóttir við komu kínverska ráðherrans á Keflavíkurflugvelli síðastliðinn föstudag. mbl.is/Kristinn

Tveggja daga opinberri heimsókn Wen Jiabao, forsætisráðherra Kína, lauk formlega í gær, en hann fór af landi brott í dag.

Það vakti athygli margra íslenskra fjölmiðlamanna, sem fylgdu forsætisráðherranum og fylgdarliði hans eftir, að fjórir kínverskir fjölmiðlamenn fengu forgang umfram aðra, íslenska sem og aðra vestræna fjölmiðlamenn. Þeir fengu að vera í hóp ásamt honum og öðrum háttsettum embættismönnum. Fengu að fara inn á svæði sem öðrum fjölmiðlamönnum var meinaður aðgangur að. Þeir flugu einnig ásamt fjölda annarra fjölmiðlamanna með forsætisráðherranum hingað til lands og notuðu jafnvel sama útgang úr flugvélinni og forsætisráðherrann.

Það bar við í ferðum forsætisráðherrans að þessir fjórir kínversku forgangsblaðamenn, sem voru merktir sem slíkir, skyggðu á þegar aðrir ljósmyndarar voru að reyna að mynda það sem fram fór og við komu Wen til landsins afhenti ung stúlka honum blómvönd sem íslenskum ljósmyndurum gekk illa að ná á mynd vegna þess hve aðgangsharðir hinir kínversku forgangsblaðamenn voru. Heimildir blaðamanns herma að oft hafi beinlínis borið á talsverðri tilætlunarsemi, jafnvel frekju, af hálfu hinna kínversku forgangsblaðamanna.

Samkomulag gert á milli stjórnvalda um aðgengi forgangsblaðamanna

Jóhann Hauksson, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar, staðfesti í samtali við blaðamann mbl.is að það hefði verið gert samkomulag um að tveir kvikmyndatökumenn og tveir ljósmyndarar frá Kína fengju forgang í ferðinni. Hið sama átti við um einn íslenskan ljósmyndara. Þetta var gert að kröfu Kínverja.

Jóhann segir vissulega óheppilegt það sem gerðist á flugvellinum þegar forsætisráðherranum voru afhent blóm og hinir kínversku blaðamenn torvelduðu þeim íslensku störf sín. Hann segir að jafnvel þótt íslensk stjórnvöld hafi látið það afskiptalaust að þessir tilteknu blaðamenn frá Kína fengju forgang hafi það aldrei verið í myndinni að þeir tefðu fyrir störfum íslenskra fréttamanna, ef til vill hafi íslensku blaðamennirnir verið of kurteisir gagnvart þeim kínversku.

Aðgengi að íslenskum ráðherrum mun betra en að þeim kínversku

Í heimsókn Wen í Hellisheiðarvirkjun var eftir því tekið hversu gott aðgengi fjölmiðlamenn höfðu að Össuri Skarphéðinssyni, utanríkisráðherra, sem ræddi við þá aðila sem óskuðu eftir því. Það var hinsvegar ákaflega erfitt fyrir blaðamenn að fá viðtöl við þá kínversku ráðherra sem fylgdu forsætisráðherranum og þurfti að fara mjög formlegar leiðir til þess að óska eftir slíku. Blaðamanni er ekki kunnugt um að neinn kínverskur ráðherra hafi veitt íslenskum blaðamanni viðtal í ferðinni.

„Á Bessastöðum er enginn mannamunur gerður.“

Það var einnig eftir því tekið á Bessastöðum að þar virtust þessi forgangsákvæði ekki hafa átt við og íslenskir blaðamenn fengu að mynda og vera viðstaddir til jafns við þá kínversku þegar forsætisráðherrann heimsótti forseta Íslands.

„Það er okkar regla að tryggja það að íslenskir fjölmiðlamenn hafi jafnan aðgang á við hina erlendu gesti. Á Bessastöðum voru allir fjölmiðlamenn í sömu stöðu og jafnir, eins og vera ber,“ sagði Örnólfur Thorsson, forsetaritari, í samtali við blaðamann, spurður um málið og bætti við: „Á Bessastöðum er enginn mannamunur gerður.“

Wen Jiabao forsætisráðherra Kína ásamt Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands …
Wen Jiabao forsætisráðherra Kína ásamt Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands á Bessastöðum. Eggert Jóhannesson
Wen Jiabao, forsætisráðherra Kína, ásamt fylgdarliði á Þingvöllum.
Wen Jiabao, forsætisráðherra Kína, ásamt fylgdarliði á Þingvöllum. mbl.is/Ómar Óskarsson
Wen Jiabao, forsætisráðherra Kína, við Gullfoss
Wen Jiabao, forsætisráðherra Kína, við Gullfoss mbl.is/Ómar Óskarsson
Össur Skarphéðinsson tók á móti Wen Jiabao við Hellisheiðarvirkjun í …
Össur Skarphéðinsson tók á móti Wen Jiabao við Hellisheiðarvirkjun í gær. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka