„Ég tel þetta vera stórsigur fyrir Geir. Þegar horft er til baka til upphaflegu ákæruatriðanna þá stendur ekki steinn yfir steini. Það er annaðhvort búið að vísa þeim frá eða sýkna hann og það stendur eitt formsatriði eftir sem er í samræmi við það hvernig hefðin hefur verið með ríkisstjórnarfundi,“ segir Árni Mathiesen, fyrrverandi fjármálaráðherra í ríkisstjórn Geirs H. Haarde, í samtali við mbl.is.
Landsdómur komst að þeirri niðurstöðu í dag eins og mbl.is hefur greint frá að sýkna bæri Geir af öllum ákæruliðum gegn honum að undanskildum einum sem sneri að því að funda með ráðherrum um stöðuna í efnahagskrísunni sem þá geisaði. Sérstök þingmannanefnd lagði til að auk Geirs yrðu þrír fyrrverandi ráðherrar í stjórn hans ákærðir og þar á meðal Árni en meirihluti Alþingis ákvað hins vegar að ákæra Geir einan.
„Það hljóta allir að sjá að þessi ákæruliður hafði ekkert að gera með það sem gerðist haustið 2008,“ segir Árni og vísar þar til bankahrunsins. Það eina góða við það að Geir hafi verið fundinn sekur um þennan eina „lítilvæga“ ákærulið sé hins vegar það að fyrir vikið hafi Geir möguleika á að fara með málið fyrir Mannréttindadómstól Evrópu og fá úr því skorið hvort málsmeðferðin hafi verið í samræmi við eðlilegt réttarfar.
Hann bendir ennfremur á að niðurstaða Landsdóms hvað varðar málskostnað og refsingu sýni hversu lítilvægur sá ákæruliður hafi verið sem Geir var sakfelldur fyrir en honum var ekki gerð refsing og kveðið á um að málskostnaðurinn skyldi greiddur af ríkissjóði. „Málskostnaðurinn og ákvörðun um enga refsingu er í samræmi við 100% sýknun.“
Spurður um þá sem stóðu að ákærunni segir Árni ljóst að þeir ríði ekki feitum hesti frá þessari niðurstöðu Landsdóms. „Þetta á sérstaklega við um þá sem vildu ákæra fleiri [fyrrverandi ráðherra] og jafnvel alla,“ segir hann og bætir því við að það sé ljóst að ef fleiri ráðherrar hefðu verið ákærðir hefðu þeir verið sýknaðir að fullu enda hafi ákæruliðurinn varðandi ráðherrafundina aðeins snúið að Geir en að öðru leyti hafi ákæruliðirnir verið hliðstæðir.
„Það er ekki hægt að draga aðra ályktun en þá,“ segir Árni að lokum.