Bar að taka málið upp í ríkisstjórn

Geir H. Haarde ræddi við blaðamenn eftir að dómur var …
Geir H. Haarde ræddi við blaðamenn eftir að dómur var kveðinn upp í Landsdómi í dag mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Landsdómur telur í dómi sínum að Geir H. Haarde hafi sýnt af sér „stórkostlegt gáleysi“ að hafa ekki frá febrúar 2008 fram í lok september það ár rætt með formlegum hætti í ríkisstjórn þá hættu sem blasti við bankakerfinu.

Geir var ákærður fyrir fjögur tiltekin atriði. Hann var sýknaður af þremur fyrstu ákæruliðum, en sakfelldur fyrir fjórða liðinn.

Samkvæmt 17. grein stjórnarskrárinnar ber að ræða „mikilvæg stjórnarmálefni“ á ráðherrafundum. Meirihluti Landsdóms telur að Geir hafi ekki sinnt þessari skyldu sinni.

Í dómnum segir að  í ársbyrjun 2008 hafi heildarinnstæður hjá íslenskum fjármálafyrirtækjum, sem nutu tryggingar hjá Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta, meira en 2.300.000.000.000 krónum. Þótt til álita hefði komið var ógerningur fyrir ríkið að takast á hendur ábyrgð á innstæðunum að fullu ef til greiðsluþrots bankanna kæmi. „Hér var við fordæmalausan og risavaxinn vanda að etja og vegna þess hve ríkir almannahagsmunir voru í húfi var án nokkurs vafa um að ræða mikilvæg stjórnarmálefni í merkingu 17. gr. stjórnarskrárinnar. Þar að auki gerði hættuástandið, sem magnaðist eftir því sem á leið, það að verkum að óhjákvæmilegt var að taka til endurmats þann þátt í efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar, sem laut að afstöðu hennar til viðskiptabankanna,“ segir í dómnum.

Í dómnum segir að samkvæmt lögum um Seðlabanka heyri þetta málefni undir ríkisstjórnina í heild sinni en ekki einstaka ráðherra. Af þeim sökum hafi verið skylt að taka það til umræðu á ríkisstjórnarfundum svo að öllum ráðherrum gæfist þar kostur á að tjá sig og ráða því til lykta.

Í dómnum er fjallað sérstaklega um yfirlýsingu sem send var til seðlabanka Svíþjóðar, Danmerkur og Noregs og bréf sem viðskiptaráðuneytið sendi breska fjármálaráðuneytinu 20. ágúst 2008. Þessi bréf hefði átt að ræða í ríkisstjórn.

„Sem fyrr segir verður einnig að leggja til grundvallar við úrlausn málsins að á þeim fundum hafi ekki verið rætt um ýmis atriði, sem voru til umfjöllunar í samráðshópi um fjármálastöðugleika og viðbúnað og fullt tilefni var til að taka fyrir í ríkisstjórn. Það var enn brýnna sökum þess að ákærði [Geir] miðlaði ekki mikilvægum upplýsingum, sem hann bjó yfir um málefni bankanna, til viðskiptaráðherra, sem þau heyrðu undir. Síðast en ekki síst er sannað að áðurgreind tvö skjöl, sem send voru erlendum stjórnvöldum og höfðu annars vegar að geyma skuldbindingar og hins vegar fyrirheit í nafni ríkisstjórnarinnar, voru ekki rædd á fundum hennar.

Sú háttsemi ákærða að láta farast fyrir að hlíta fyrirmælum 17. gr. stjórnarskrárinnar um að halda ráðherrafundi um þau mikilvægu stjórnarmálefni, sem lýst hefur verið hér að framan, varð ekki eingöngu til þess að brotin væri formregla, heldur stuðlaði hún að því að ekki var á vettvangi ríkisstjórnarinnar mörkuð pólitísk stefna til að takast á við þann mikla vanda, sem ákærða hlaut að vera ljós í febrúar 2008. Ef slík stefna hefði verið mörkuð og henni síðan fylgt eftir á skipulegan hátt, þar á meðal af Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitinu, má leiða að því rök að draga hefði mátt úr því tjóni, sem hlaust af falli bankanna í byrjun október 2008. Enn fremur er líklegt að stjórnvöld hefðu þá verið betur undir það búin að taka afstöðu til beiðni Glitnis banka hf. um fjárhagsaðstoð í lok september 2008 þannig að greiða hefði mátt úr vanda þess banka á yfirvegaðri hátt en gert var,“ segir í dómnum.

Eins og áður er komið fram er Geir ekki gerð refsing í málinu þó að hann hafi verið sakfelldur fyrir þetta eina atriði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert