Ekki formsatriði heldur alvarleg ákæra

Birgitta Jónsdóttir.
Birgitta Jónsdóttir. Kristinn Ingvarsson

„Ég minni á að Geir H. Haarde er sakfelldur fyrir að brjóta gegn stjórnarskránni með stórkostlegu gáleysi og það er ekki formsatriði heldur alvarleg ákæra sem þó er erfitt út frá lögum okkar að finna leiðir til að refsa fyrir,“ segir Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar.

„Mér hefði fundist, út af því að hann var sakfelldur, rétt að hann hefði verið látinn bera kostnað af þessu réttarhaldi,“ bætir hún við en samkvæmt dómnum er allur sakarkostnaður greiddur úr ríkissjóði, þ.m.t. málsvarnarlaun verjanda Geirs.

Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, segir að það fyrsta sem þingmenn geri þegar þeir taki sæti á Alþingi sé að sverja eið að stjórnarskránni, hún sé undirstaða stjórnskipunar landsins. „Því var það ætíð mitt mat að þessi liður væri skýrasti og jafnframt alvarlegasti hluti ákærunnar. Stjórnarskránni var ekki fylgt og afleiðingin var að mikilvægum upplýsingum var haldið frá ríkisstjórninni sem ógnun við efnahagnum, stjórnskipuninni og lýðræðinu í landinu og undir það tekur Landsdómur.“

Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, segir gott að niðurstaða sé komin í málið en hún ætli að öðru leyti ekki að leggja mat á dóminn. „Þetta sýnir að það var ástæða til að láta þennan erfiða leiðangur ganga alla leið.“

Birgitta, Eygló og Lilja Rafney voru meðal þeirra sem sátu í þingmannanefnd sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert