Engin fordæmi til að styðjast við

Landsdómur kveður í dag kl. 14 upp dóm í máli …
Landsdómur kveður í dag kl. 14 upp dóm í máli gegn Geir H. Haarde. mbl.is/Golli

Sigríður J. Friðjónsdóttir, saksóknari Alþingis, fer fram á að Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, verði dæmdur til refsingar og greiðslu sakarkostnaðar, en Landsdómur kveður í dag upp dóm í máli sem Alþingi höfðaði gegn honum.

Þetta er fyrsti dómurinn sem Landsdómur kveður upp en hann hefur aldrei áður komið saman þó að ákvæði um hann hafi verið til í lögum í meira en 100 ár. Dómararnir í Landsdómi, en þeir eru 15, hafa því engin fordæmi hér á landi til að styðjast við þegar þeir komast að niðurstöðu.

Lögin um Landsdóm eru sniðin að dönskum lögum og því hafa menn gjarnan vísað til starfa danska réttarins. Saksóknari Alþingis gerði það þegar hún flutti málið í mars. Sigríður tók þó fram að erfitt væri fyrir saksóknara að leggja fram kröfu um ákveðna þyngd dóms þar sem engin fordæmi væru í málinu. Hún sagði nærtækasta dæmið í því sambandi fangelsisdóm yfir Erik Ninn-Hansen, fyrrverandi dómsmálaráðherra Danmerkur, í svokölluðu Tamíla-máli, en hann var árið 1995 dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi, skilorðsbundið til eins árs.

Samkvæmt lögum um ráðherraábyrgð getur hámarksrefsing verið tveggja ára fangelsi vegna brota á lögunum, en áður en dómarar velta fyrir sér hugsanlegri refsingu þurfa þeir að svara þeirri spurningu hvort Geir er sekur um þá vanrækslu sem hann er sakaður um. Um þá spurningu tókust saksóknari og verjandi Geirs í yfirheyrslum og málflutningi í málinu sem fram fór í mars.

Málið gegn Geir á sér um tveggja ára aðdragenda. Eftir að rannsóknarnefnd Alþingis skilaði skýrslu um orsakir og aðdragenda hrunsins skipaði Alþingi þingmannanefnd til að fara yfir skýrsluna. Eitt af því sem nefndin gerði var að fjalla um hvort ætti að leggja fyrir Alþingi tillögu um að ákæra ráðherra fyrir vanrækslu. Ekki varð samstaða um slíka tillögu í nefndinni. Alþingi samþykkti síðan 28. september 2010 að höfða mál gegn Geir en tillögur um að ákæra þrjá aðra ráðherra voru felldar.

Saksóknari Alþingis gaf út ákæru gegn Geir 10. maí í fyrra. Andri Árnason, verjandi Geirs, krafðist þess að ákærum yrði vísað frá. Landsdómur féllst á að tveir fyrstu ákæruliðunum yrði vísað frá, en hafnaði kröfu um að ákærunni í heild sinni yrði vísað frá.

Bein útsending verður frá dómsuppkvaðningu í Landsdómi á mbl.is í dag, en þinghald hefst kl. 14.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert