Björn Valur Gíslason, þingflokksformaður Vinstri grænna, segir dóm landsdóms yfir Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, sýna að full ástæða hafi verið fyrir málarekstrinum af hálfu Alþingis, og um það verði ekki frekar deilt.
Í pistli á vefsvæði sínu segir Björn Valur dóminn undirstrika það, að full ástæða var til þess af hálfu Alþingis að höfða málið. „Dómurinn hlýtur að vera áfall fyrir þá sem reyndu með öllum ráðum að koma í veg fyrir að Landsdómur lyki störfum sínum. Niðurstaða dómsins sýnir að það hefði verið kolröng ákvörðun.“
Þá bendir Björn Valur á að landsdómur hafi komist að þeirri niðurstöðu að Geir hafi brotið af sér með því að halda ekki ráðherrafundi um mikilvæg stjórnarmálefni. „Þar með má líka segja að þeir ráðherrar sem hefðu átt að hafa upplýsingar um stöðu mála í aðdraganda Hrunsins en höfðu ekki vegna þess að Geir uppfyllti ekki skyldur sínar, séu þar með fríir af þeim málum.“