„Þetta er mjög mikill áfellisdómur yfir störfum hans sem forsætisráðherra. Hann brást sem forsætisráðherra, landsdómur er að segja það,“ segir Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, um dóminn yfir Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra. Hann telur enn að rétt hafi verið að ákæra Geir.
Þór segir Geir hafa verið sakfelldan fyrir mjög mikilvægan ákærulið og hann sé sekur um að hafa brugðist. „Hann hélt ekki ríkisstjórnarfundi, hann upplýsti ríkisstjórnina ekki um hvað var að gerast. Í öllum þeim meginatriðum sem forsætisráðherra á að vera ábyrgur fyrir því að stýra sinni ríkisstjórn brást hann.“
Þó svo Geir hafi verið sýknaður af flestum ákæruliðum segir Þór að þeir ákæruliðir hafi verið léttvægir miðað við þann ákærulið sem Geir var sakfelldur fyrir. „Og þetta sendir skilaboð til stjórnmálamanna og stjórnsýslunnar um að hér þarf að gera róttækar breytingar til að þetta geti ekki gerst aftur.“
Spurður hvort hann telji þá að landsdómur hefði átt að refsa Geir, en honum var ekki gerð refsing, segir Þór: „Ég velti fyrir mér hvernig hægt er að gera mönnum refsingu í svona fordæmalausu máli. Það er ekki til neinn refsirammi fyrir svona brot. En mér hefði þótt eðlilegt að hann bæri sakarkostnað því hann er sakfelldur fyrir veigamesta ákæruliðinn í málinu. En það er í fljótu bragði það eina sem ég get gagnrýnt.“
En þó svo Geir hafi ekki verið gerð refsing og sakarkostnaður fallið á ríkissjóð telur Þór engu að síður rétt að Alþingi hafi ákært Geir. „Ég tel að það hafi verið algjörlega nauðsynlegt að fara í þessa vegferð, því hún hefur sýnt okkur fram á svo mikla galla í íslensku stjórnkerfi og stjórnsýslu að við getum ekki horft framhjá því. Hún sýndi okkur einnig fram á þann versta galla, að pólitískir stuðningsmenn geta komið ráðherrum sínum í skjól undan lögum í atkvæðagreiðslu á þingi. Það er algjörlega óásættanlegt fyrirkomulag þegar kemur að ráðherraábyrgð.“