„Geir H. Haarde var borinn mjög þungum sökum. Hann var ákærður fyrir athafnaleysi, að hafa ekki gripið til aðgerða sem hefðu getað afstýrt hruni. Nú hefur Landsdómur með afdráttarlausum hætti sýknað hann af þessu. Það er auðvitað fagnaðarefni fyrir Geir en það er líka fagnaðarefni fyrir þá sem sátu í þeirri ríkisstjórn sem hann veitti forystu vegna þess að í dómsorðinu felst líka yfirlýsing Landsdóms um að sú ríkisstjórn átti ekki völ á neinum aðgerðum sem hefðu getað afstýrt bankahruninu. Þar með er endanlega búið að afgreiða staðhæfingar um slíkt.“
Þetta segir Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra í samtali við mbl.is um þá niðurstöðu Landsdóms í dag að sýkna Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, af öllum ákæruliðum utan einn sem sneri að því að funda með ráðherrum um stöðuna í efnahagskrísunni sem þá geisaði. Össur segir það ekki hafa komið sér á óvart að Landsdómur teldi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar undir forsæti Geirs, sem Össur sat í sem iðnaðarráðherra, ekki hafa getað afstýrt bankahruninu enda sé það í fullu samræmi við niðurstöður skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis.
„Hvað varðar þann ákærulið sem Geir er sakfelldur fyrir, að hafa ekki kallað saman ráðherrafund um mikilvæg stjórnarmál, þá er ég ósammála því. Það er í ósamræmi við verkhefðir ríkisstjórna áratugum saman. Ég hins vegar virði Landsdóm, þetta er hans niðurstaða,“ segir Össur en bætir því við að hann geti hins vegar ekki talið það brot meiriháttar í ljósi þess að Geir sé ekki dæmdur til refsingar vegna þess af hálfu Landsdóms.
„Sömuleiðis kýs ég að túlka niðurstöðuna sem sterka áminningu til stjórnmálamanna og embættismanna núna og í framtíðinni að vanda sín verk eins vel og hægt er. Sjálfur hef ég látið það til mín taka í kjölfar rannsóknarskýrslunnar. Verkferlar í mínu ráðuneyti hafa verið skoðaðir og formgerðir þannig að allar ákvarðanir núna eru rekjanlegar og til lykta leiddar með skriflegum hætti,“ segir Össur ennfremur.
„Það sem ég iðrast alla tíð, frá því að hin sögulega atkvæðagreiðsla var háð í sölum Alþingis 2010, er að hafa í þessu spennuþrungna andrúmslofti ekki haft vit eða rænu á því, þegar ljóst var að í það stefndi að Geir einn stæði frammi fyrir dómnum, að óska eftir fundarhléi á því kvöldi og fá þingflokka til þess að ráða ráðum sínum. Það voru glöp af minni hálfu og allra annarra sem þar voru staddir,“ segir Össur.