„Þetta mál er þeim þingmönnum sem að því stóðu til háborinnar skammar,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á Facebook-síðu sinni í dag í tilefni af niðurstöðu Landsdóms þar sem Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, var sýknaður af öllum ákæruliðum nema einum sem laut að því að boða til formlegra ráðherrafunda um stöðuna í efnahagsmálum í aðdraganda bankahrunsins.
„Geir er sýknaður af öllum efnislegum ákæruatriðum. En áður hafði Landsdómur vísað frá alvarlegustu ákæruatriðunum. Hann er hinsvegar sakfelldur fyrir formsatriði sem lýtur að umræðum á ríkisstjórnarfundum! Fær enga refsingu og fær endurgreiddan málskostnað,“ segir Guðlaugur og bætir við að það sé mjög sérkennilegt.
„Það þýðir væntanlega að ráðherrar í þessari ríkisstjórn munu leiða sjálfan sig fyrir Landsdóm vegna þess að þeir hafa ekki haldið ríkisstjórnarfundi um mikilvæg mál. Má þar nefna málsókn ESB á hendur Íslandi, Líbýustríðið og gjaldeyrishöftin,“ segir hann og vísað til núverandi ríkisstjórnar.
Facebook-síða Guðlaugs Þórs Þórðarsonar