Ósáttur við niðurstöðuna

Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, er ósáttur við niðurstöðu Landsdóms sem sakfelldi hann fyrir einn ákærulið af fjórum. Hann segir niðurstöðuna hlægilega og furðulega.

Geir segir greinilegt að meirihluti Landsdóms hafi séð sig knúinn að sakfella fyrir eitt atriði til að draga minnihluta Alþingis að landi. Þetta kom fram í máli Geirs er hann ræddi við fréttamenn að lokinni dómsuppkvaðningu í dag.

„Það er meginatriði í sambandi við þennan dóm að það er sýknað fyrir öll efnisleg ákæruatriði. Ég lýsi ánægju minni með þá niðurstöðu og að mál þetta skuli nú loks til lykta leitt fyrir Landsdómi.

Það eina sem sakfellt er fyrir, og það mjög vægilega, er formsatriði sem lýtur að umræðum á ríkisstjórnarfundum. Engum getur dottið í hug að það atriði hafi átt nokkurn minnsta þátt í bankahruninu haustið 2008. Dómurinn varðandi þetta atriði er fáránlegur og í raun og veru sprenghlægilegur. Hafi ég verið sekur um stjórnarskrárbrot að þessu leyti, þá jafngildir það því að allir forsætisráðherrar landsins frá því landið fékk fullveldi hafa verið sekir um sama brot. Því má segja að ég hafi verið sakfelldur fyrir hönd þeirra allra.

Greinilegt er að meirihluti dómsins taldi sig knúinn til að sakfella fyrir eitthvað eitt atriði, hversu lítilvægt sem það er, til að draga þann hluta alþingismanna sem stóðu að ákærunni að landi.

Ég geri ráð fyrir að vísa þessari niðurstöðu til Mannréttindadómstóls Evrópu. Þá verða dregin fram öll þau fáránlegu mistök sem framan af einkenndu meðferð málsins af hálfu Alþingis og saksóknara þess, dómsmálaráðuneytisins og landsdóms,“ segir Geir.

Að sögn Geirs er málatilbúnaður meirihluta Alþingis og saksóknara þess efnislega byggður á sandi og einkennist af pólitísku ofstæki, hefnigirni og fákunnáttu frekar en heilbrigðri skynsemi eða virðingu fyrir lögum og réttlæti.

„Nú þurfa þeir sem hafa borið ábyrgð á þessari sneypuför í heil tvö ár að gera upp við sig hvernig þeir axla sína ábyrgð. Ég er ekki í vafa um að allt fólk með snefil af sómatilfinningu, allir stjórnmálamenn sem taka mark á sjálfum sér, myndu segja af sér eftir að hafa fengið slíkan löðrung, sem landsdómur hefur nú rekið upphafsmönnum og aðstandendum málsins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert